Hoppa yfir valmynd
22. október 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland og Ítalía: Jarðhitafrumkvöðlar gera samstarfssamning

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Stefano Nicoletti, sendiherra Ítalíu. - mynd

Samstarfssamningur á milli Íslands og Ítalíu um jarðhitamál var undirritaður í liðinni viku, af Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Stefano Nicoletti, sendiherra Ítalíu gagnvart Íslandi, fyrir hönd orkumálaráðherra Ítalíu. Samningurinn kveður á um aukið samstarf á sviði jarðhitamála, bæði tvíhliða og innan vébanda alþjóðlegra stofnana.

Guðlaugur Þór sagði við undirritunina að það væri við hæfi og tímabært að þau tvö lönd sem hefðu lengsta sögu og mesta þekkingu á sviði nýtingar jarðhita í Evrópu skrifuðu undir samning um samvinnu á því sviði. Jarðhiti væri vannýtt endurnýjanleg auðlind í Evrópu og á heimsvísu og stundum væru óþarfa hindranir á nýtingu hans í regluverki, oft vegna vanþekkingar. Í baráttu gegn loftslagsbreytingum ætti að taka nýtingu jarðhita fagnandi en ekki setja upp þröskulda. Samband Íslands og Ítalíu væri gott og samstarf í jarðhitamálum myndi bæta það enn.

Nicoletti sagði margt vera líkt með nýtingu jarðhita í ríkjunum tveimur. Ítalir hefðu byggt sitt fyrsta jarðhitaver árið 1905 og byggju yfir mikilli reynslu og þekkingu; þeir deildu einnig þekkingu sinni með öðrum ríkjum líkt og Ísland. Samningurinn sem nú hefði verið undirritaður sé nýtt upphaf nánari samvinnu, þar sem mikilvægt sé að draga sérfræðinga og einkageirann að borðinu.


  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Stefano Nicoletti, sendiherra Ítalíu, ásamt fulltrúum. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta