Aðalframkvæmdastjóri Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Samstarf Íslands og UNESCO og varðveisla íslenskrar tungu á tímum tækniþróunar voru meðal umræðuefna á fundi Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), og Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptamálaráðherra í gær 17. október. Azoulay var stödd á Ísland til að taka þátt í Hringborði Norðurslóða sem fer fram í Hörpu dagana 16.-18. október, en hún flutti ávarp um sýn UNESCO í norðurslóðamálum á opnunarviðburði hringborðsins.
,,Það var ánægjulegt að taka á móti Audrey Azoulay aðalframkvæmdastjóra UNESCO og ræða meðal annars um þann árangur sem Ísland hefur náð í máltækni. Af litlum málsvæðum erum við leiðandi á þessu sviði á heimsvísu svo eftir er tekið og getum miðlað af reynslu okkar og þekkingu til annarra ríkja sem þar sem fámenn málsvæði er að finna,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Meðan á heimsókninni stóð skoðaði Azoulay einnig UNESCO Global Geopark á Reykjanesi og hitti nemendur jarðhitaskóla GRÓ, sem starfar undir merkjum UNESCO á Íslandi. Þá átti hún fundi með forseta og forsætisráðherra og heimsótti Þjóðminjasafn Íslands.
Ísland situr í framkvæmdastjórn UNESCO tímabilið 2021-2025 og hefur markvisst eflt samstarfið við stofnunina undanfarin ár en verkefni hennar snerta verksvið nokkurra ráðuneyta. Í framkvæmdastjórninni hefur Ísland lagt áherslu á framkvæmd heimsmarkmiðanna, jafnrétti, mannréttindi, mennta- og menningarmál og pólitísk málefni. Utanríkisráðuneytið hafði veg og vanda af heimsókn Azoulay.