Hoppa yfir valmynd
22. október 2024 Dómsmálaráðuneytið

Frestur til að sækja um listabókstaf rennur út á hádegi mánudaginn 28. október

Dómsmálaráðuneytið vekur athygli á því að frestur til þess að sækja um nýjan listabókstaf og staðfestingu á heiti nýrra stjórnmálasamtaka vegna komandi alþingiskosninga rennur út á hádegi mánudaginn 28. október. Þremur sólarhringum síðar, eða á hádegi miðvikudaginn 31. október rennur síðan út frestur til að tilkynna um framboð til kosninganna.

Umsókn um nýja listabókstafi og staðfestingu á heiti nýrra stjórnmálasamtaka

Dómsmálaráðuneytið tekur við umsóknum um nýja listabókstafi og staðfestingu á heiti nýrra stjórnmálasamtaka. Nánari upplýsingar er að finna á kosning.is og heimasíðu dómsráðuneytisins eða með fyrirspurn á netfang ráðuneytisins [email protected].

Umsókn um listabókstaf þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Umsókn verður að berast ráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út
  2. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda
  3. Skýrt þarf að koma fram í yfirlýsingunni að mælt sé með heiti samtakanna og úthlutun tiltekins listabókstafs
  4. Yfirlýsingin skal dagsett, og þar skal koma fram nafn meðmælanda, kennitala hans og heimili.
  5. Heiti stjórnmálasamtakanna má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skrá um listabókstafi og heiti stjórnmálasamtaka.

Meðmælum er einungis unnt að safna á pappír. Til hægðarauka hefur dómsmálaráðuneytið útbúið eyðublað til söfnunar meðmæla vegna kosninga.  Vakin er athygli á því að þegar meðmælablöðum er skilað til ráðuneytisins þarf jafnframt að skila upplýsingum um nafn, kennitölu og heimili meðmælenda auk dagsetningar þegar meðmæli voru skráð á meðmælalistann á tölvutæku formi í Excel. Er það gert til að flýta fyrir yfirferð á meðmælum.

Þegar umsóknin berst ráðuneytinu er stjórnmálasamtökum sem eru á skrá yfir þá sem buðu síðast fram í kosningum tilkynnt um umsóknina. Telji ráðuneytið að ætla megi að villst verði á heiti nýrra stjórnmálasamtaka og þeirra samtaka sem þegar eru á skránni skal samtökunum gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr. Uppfylli umsókn skilyrðin staðfestir ráðuneytið heiti stjórnmálasamtakanna og ákveður bókstaf þeirra.

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um listabókstaf og heiti verður áðurnefnd skrá uppfærð og birt í B deild Stjórnartíðinda og tilkynnt landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta