Hoppa yfir valmynd
23. október 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Einfaldað sjóðaumhverfi vísinda og nýsköpunar og uppfærð skilgreining á hlutverki Rannís í samráðsgátt​

Drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við vísindi og nýsköpun hefur verið birt í samráðsgátt.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um opinbera samkeppnissjóði á sviði vísinda og nýsköpunar sem heyra undir ráðuneytið, ásamt því að hlutverk Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) í stuðningsumhverfi þekkingarsamfélagsins verði skilgreint. 

Frumvarpið hefur fjögur meginmarkmið:

  1.  Að einfalda núverandi sjóðaumhverfi vísinda og nýsköpunar, fækka sjóðum og minnka umsýslukostnað.
  2. Að aðgreina sjóði til grunnrannsókna og -nýsköpunar með skýrari hætti frá þeim sjóði sem tekur mið af áherslum stjórnvalda og miðar að því að leysa skilgreindar áskoranir.
  3. Að lögfesta árangurs- og áhrifamat á sjóðunum til að tryggja að þeir skili þeim árangri sem ætlast er til og efli íslensk þekkingarsamfélag og samkeppnishæfni landsins.
  4. Að uppfæra lagalegt hlutverk Rannís í samræmi við núverandi verkefni stofnunarinnar. 

Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að þeir átta samkeppnissjóðir sem starfræktir hafa verið undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu verði sameinaðir í þrjá stærri og öflugri sjóði sem tengdir eru við áherslur og stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun. Gert er ráð fyrir að tveir hinna nýju, sameinuðu sjóða, Vísindasjóður og Nýsköpunarsjóður, verði opnir, en sá þriðji, Áherslusjóður, verði háður áherslum stjórnvalda hverju sinni. 

Samhliða breytingum á samkeppnissjóðum verður hlutverki og nafni Rannsóknamiðstöðvar Íslands breytt þannig að þau endurspegli raunveruleg verkefni stofnunarinnar, en engar breytingar hafa verið gerðar á hlutverki stofnunarinnar í yfir tvo áratugi. Frá þeim tíma hafa þó umfangsmiklar breytingar átt sér stað á starfsemi stofnunarinnar og endurspeglar gildandi löggjöf ekki hin víðtæku og fjölbreyttu verkefni sem Rannís sinnir í dag. Lagt er til að stofnunin fái nafnið Rannís – Þjónustumiðstöð þekkingarsamfélagsins og að hlutverk stofnunarinnar verði skilgreint á breiðari grundvelli en áður sem þjónustu- og umsýslustofnun opinberra samkeppnis- og réttindasjóða.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hvetur til samráðs um frumvarpið. Umsagnarfrestur er til og með 12. nóvember nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta