Ráðstefna Almannavarna fimmtudaginn 31. október 2024
Árleg ráðstefna Almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra verður haldin fimmtudaginn 31. október kl. 13:00-16:15, á Hilton Reykjavík Nordica.
Á ráðstefnunni, sem haldin er í þriðja sinn verður eins og áður fjallað vítt og breitt um almannavarnarmál á Íslandi. Farið verður yfir endurbætt lög um almannavarnir og hlutverk og ábyrgð sveitafélaga þegar váin bankar á dyrnar. Hvaða áhrif hamfarir geta haft djúpstæð áhrif á börn til lengri tíma og mikilvægi þess að bregðast rétt við.
Einnig verður rætt um hvernig loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum. Allt þetta kallar á viðbrögð, ekki bara viðbragðsaðila heldur yfirvalda og almannavarnarkerfisins eins og það leggur sig. Undir lok dags segja tveir félagar úr lögreglunni frá sinni upplifun frá Flateyri og Súðavík eftir að snjóflóð féllu þar árið 1995 og bera saman við stöðuna í dag.
Allir sem hafa áhuga á almannavarnamálum eru velkomnir á ráðstefnuna. Aðgangur er ókeypis en sætafjöldi takmarkaður og því er skráning nauðsynleg. Allar frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarnasviðs ([email protected])
SKRÁNING Á RÁÐSTEFNU ALMANNAVARNA 31. OKTÓBER 2024
13:00 – 13:10 Opnun ráðstefnunnar
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra
13:10 – 13:30 Farið yfir sviðið
Almannavarnadeild, Almannavarnasvið, Almannavarnir, almannavarnarkerfið, almannavarnarnefndir, almannavarnir embætta lögreglunnar, aðgerðarstjórnir. Hver er hvað? Hver gerir hvað? Hver ber ábyrgð á hverju? Síðustu vikur og mánuði hefur verið unnið að endurskoðun almannavarnalaga. Hverju breytir það fyrir Almannavarnasvið ríkislögreglustjóra eða almannavarnakerfið?
Sólberg S. Bjarnason, deildarstjóri Almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra
13:30 – 13:45 Ný og endurbætt lög um almannavarnir
Atburðir síðustu missera og ára hafa leitt fram nauðsyn þess að yfirfara almannavarnarkerfið og þau lög sem um þau gilda. Dómsmálaráðuneytið tók ákvörðun á vormánuðum 2023 að undirbúa þá endurskoðun með heildstæðum hætti. Samhliða var unnið að því að setja fram framtíðarsýn, mörkuð stefna og sett fram stjórnskipulag fyrir málaflokkinn. Í þessari vinnu lagði ráðuneytið einnig áherslu á að haft yrði samráð við alla hagaðila almannavarnarkerfinu og þeim gefinn kostur að koma sínum áherslum á framfæri. Hvað þýðir þetta fyrir sveitarfélögin á Íslandi, viðbragðsaðila, hagaðila?
Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri almanna- og réttaröryggis hjá Dómsmálaráðuneytinu.
13:45 – 14:05 Almannavarnarástand skekur sveitarfélag
Samvinna ríkis og sveitarfélaga er lykilatriði í því að almannavarnarkerfið virki sem skyldi, þetta er meðal annars það sem kom fram í yfirlýsingu sem formaður Sambands íslenskra sveitafélaga og dómsmálaráðherra skrifuðu undir í mars á þessu ári. Markmiðið með yfirlýsingunni var að leggja áherslu á að sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í almannavarnarmálum. Almannavarnarnefndir sveitarfélaga móta stefnu og skipuleggja starf sitt að almannavörnum í héraði og bera meðal annars ábyrgð á gerð viðbragðsáætlana. Auk þess sinna sveitarfélögin nærþjónustu við íbúana og því reynir verulega á alla innviði sveitarfélaga þegar alvarleg almannavarnaatvik koma upp.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
14:05 – 14:30 „Púslum þessu saman“ Velferð barna og ungmenni í náttúruvá
Grindavík er bær sem er þekktur fyrir margt eins og sjávarútveg og nálægð við Bláa Lónið. Grindavík var áður umkringt hraunbreiðum en í dag varnargörðum. Á einu ári hefur líf Grindvíkinga kollvarpast og enginn sér fyrir endann á þessari sögu sem náttúran er að skrifa.
Það er ljóst að hamfarir geta haft djúpstæð áhrif á börn, ekki aðeins í skamman tíma, heldur líka til lengri tíma. Lífsgæði þeirra og geðheilbrigði eru í húfi, og því er mikilvægt að við bregðumst rétt við. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um viðbrögð til að styðja við farsæld grindvískra barna í kjölfar náttúruhamfara. hvað virkaði vel? Hvað höfum við lært og hvernig getum við nýtt þann lærdóm til að vera betur undirbúin næst. Það er ljóst að við höfum ekki stjórn á náttúruöflum, en við getum stjórnað því hvernig við bregðumst við.
Jóhanna L. Birgisdóttir, framkvæmdastýra Þjónustuteymis um félagsleg málefni Grindvíkinga og MSc í klínískri sálfræði.
14:30 – 15:00 Kaffihlé
15:00 – 15:20 Möguleg framvinda og svartir svanir
Áhrif loftslagsbreytinga á flóðahættu og náttúruhamfarir auk annarra kerfislægra áhættuþátta.
Loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Þær auka náttúruvá, t.d. vegna aftakaúrkomu, hvassviðra, hættu á flóðum í ám og úr jaðarlónum, skriðufalla, sjávarflóða, tíðari eldgosa og gróðurelda.
Hvað sjávarflóð varðar benda öll líkön og allar sviðsmyndir um losun gróðurhúsalofttegunda til þess að hér hækki eiginleg sjávarstaða, en landris hefur yfirhöndina á suður- og suðausturströndinni og þar getur afstæð sjávarstaða fallið. Íslenskt samfélag kann að vera berskjaldað gagnvart flókinni og kerfislægri áhættu vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Slíkar áhættur eru m.a. til staðar í matvæla- og fjármálakerfum og í aðfangakeðjum. Þá getur loftslagsáhætta utan Íslands aukið komu flóttamanna til landsins.
Erindið ræðir þessar hættur og óvissu þeim tengdar og mikilvægi þess að taka tillit til aukinnar náttúruvár við skipulagsgerð svo stýra megi áhættunni. Einnig er stuttlega fjallað um óþægilegar uppákomur í gróðurhúsaheimi, möglega (en ólíklega?) atburðarás þar sem afleiðingar gætu orðið mun skaðlegri.
Halldór Björnsson, Fagstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands
15:20 – 16:00 Hvað höfum við lært?
Árið 1995 féllu snjóflóð á Súðavík og Flateyri. Atburðir sem höfðu djúpstæð áhrif á allt samfélagið. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra, var 23 ára gamall í starfsnámi frá lögregluskólanum í lögreglunni á Ísafirði og Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn í lögreglunni á Vestfjörðum, var rannsóknarlögreglumaður í lögreglunni á Ísafirði. Þeir munu fara yfir þessa atburði út frá sinni upplifun á þessum tíma og bera saman við stöðuna í dag. Hvað höfum við lært?
Rögnvaldur Ólafsson og Hlynur Hafberg Snorrason
16:00 – 16:15 // Samantekt
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Ríkislögreglustjóri