Ný og stórbætt umgjörð um rústir skálans á Stöng í Þjórsárdal
Ný og stórbætt yfirbygging skálans á Stöng í Þjórsárdal var nýlega opnuð formlega. Verkefnið var fjármagnað í gegnum Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
Byggingin var hönnuð af arkitektunum Karli Kvaran og Sahar Ghaderi Kvaran hjá SP(R)INT STUDIO og byggir á verðlaunatillögu þeirra úr hugmyndasamkeppni sem Fornleifavernd ríkisins, forveri Minjastofnunar Íslands, efndi til í samvinnu við Arkitektafélag Íslands árið 2012. Verktaki við smíði húss og jarðvinnu var Langeldur ehf. en VSB verkfræðistofa sá um burðarþolshönnun.
Með framkvæmdinni er minjasvæðið á bæjarhól Stangar afmarkað með samfelldum timburpalli sem myndar umgjörð um minjarnar og er um leið göngupallur umhverfis bygginguna og útsýnispallur. Hönnunin er í anda sjálfbærni og endurnýtingar byggingarefnis, en einnig varðveitir hún nýliðna sögu um minjavernd síðustu áratuga með því að nýta áfram burðarvirkið frá 1957. Ekki er lengur heimilt að fara inn í húsið og ganga á rústinni sjálfri. Þess í stað er komin alveg ný aðstaða til að skoða rústirnar frá hærra sjónarhorni, sem veitir gestum nýja og betri yfirsýn yfir gamla stórbýlið og innra samhengi þess.
Þá var fyrir nokkrum árum lagður nýr og aðgengilegur malarstígur frá bílastæði við nýja göngubrú og áfram upp brekkuna að bæjarhólnum við Stöng, en tugþúsundir gesta heimsækja staðinn ár hvert. Þjórsárdalur, með öllum sínum náttúruperlum og merku minjastöðum, dregur til sín sífellt fleiri gesti.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Stöng er einn merkasti minjastaður landsins og á sérstakan sess, bæði í sögu landsins, svæðisins, og í huga fólks. Bæjarstæði Stangar er hluti umfangsmikillar minjaheildar í Þjórsárdal sem okkur ber að varðveita. Nú hefur náðst langþráð markmiði um stóraukna vernd og stórbætta umgjörð um einstakar rústir þjóðveldisbæjarins.“
Minjasvæðið á bæjarhól Stangar er nú afmarkað með samfelldum timburpalli sem myndar umgjörð um minjarnar og er um leið göngupallur umhverfis bygginguna og útsýnispallur. Ljósmynd/Karl Kvaran
Þjórsárdalur er friðlýstur sem búsetu- og menningarlandslag. Stærstur hluti byggðarinnar fór í eyði snemma á miðöldum, en talið er að Stöng hafi farið í eyði í Heklugosi árið 1104. Rúmlega 20 fornbýli hafa verið skráð í dalnum og eru þau að mestu óröskuð af mannavöldum, en eru þó býsna illa farin eftir glímutök náttúruaflanna í aldanna rás.
Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi áætlun sem Alþingi samþykkti árið 2018 og nær núverandi áætlun til ársins 2025. Mikill árangur hefur náðst, í gegnum áætlunina, við að bæta innviði um land allt og auka getu svæða til að taka á móti ferðamönnum.