Hoppa yfir valmynd
25. október 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áfram öflugur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Ísland er í fremstu röð OECD landa þegar kemur að stuðningi við nýsköpun og þróun. Í anda þess er lagt til að stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki verði viðhaldið í frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (nýsköpun, virðisaukaskattur o.fl.). Í frumvarpinu er lagt til að endurgreiðsluhlutfall verði 34% til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og 22,5% til stórra fyrirtækja. Þak á frádráttarbærum kostnaði verður 1 ma.kr. nái frumvarpið fram að ganga. Að óbreyttu hefði stuðningurinn lækkað umtalsvert um áramót en þá fellur úr gildi bráðabirgðaákvæði sem fyrst var sett á sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við heimsfaraldrinum.

Markmið laganna um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við rannókna- og þróunarverkefni. Þeim breytingum sem nú eru kynntar í frumvarpi er ætlað að viðhalda stöðu Íslands í fremstu röð meðal nýsköpunarríkja ásamt því að auka á skilvirkni og eftirlit með þessum mikilvæga opinbera stuðningi. Breytingatillögurnar byggjast að meginstefnu til á ábendingum sem fram komu í skýrslu OECD „Evaluating the effects of the R&D tax credit in Iceland“ sem kynnt var í ágúst 2023 en sú úttekt var unnin að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. OECD kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að skattastuðningur vegna rannsókna og þróunar hafi hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki til frekari fjárfestinga á því sviði. Öflugt rannsóknar- og þróunarstarf gegnir lykilhlutverki í að stuðla að nýsköpun, efla framleiðni og skapa nýjar útflutningsgreinar sem leiðir til auknar samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði.  Í þessu sambandi má nefna að gríðarlegur vöxtur hefur orðið í útflutningi hugverkaiðnaðar á undanförnum árum. Þá jókst hlutdeild upprennandi útflutningsgreina úr 10% í 16% á árunum 2018–2023.

Gríðarlegur vöxtur í útflutningi hugverkaiðnaðar. Hlutfall upprennandi útflutningsgreina.

Helstu breytingar í frumvarpinu snúa að endurgreiðsluhlutfalli og þaki frádráttarbærs kostnaðar. Þá mun hámarksstuðningur takmarkast við samanlagðan kostnað fyrirtækja sem teljast tengd ásamt því að miðað er við að fyrirtæki leggi fram nýjar umsóknir á þriggja ára fresti fyrir langtímaverkefni í stað þess að framlengja umsóknir. Ríkisskattstjóra verður heimilt að veita Rannís tiltækar upplýsingar um umsækjendur með það að markmiði að auðvelda eftirlit og auka skilvirkni stuðningskerfisins.

Í fjármálaáætlun 2025–2029 var gert ráð fyrir að hægt yrði á útgjaldavexti til rannsóknar og þróunar. Eftir sem áður er gert ráð fyrir umtalsverðum útgjaldavexti, eða 7,5 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar sem samsvarar 45% útgjaldavexti.

Stuðningur vaxið mikið

Stuðningur stjórnvalda við nýsköpunarfyrirtæki hér á landi er umfangsmikill og hefur vaxið mikið undanfarin ár. Á árinu 2017 nam endurgreiðsla vegna stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki um 3,3 ma.kr. ma.kr. á verðlagi ársins 2024 og í frumvarpi til fjárlaga ársins 2025 er gert ráð fyrir 17,2 ma.kr. Gert er ráð fyrir að í lok tímabils fjármálaáætlunar verði stuðningurinn rúmir 24 ma.kr.

Samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæði geta lítil og meðalstór fyrirtæki sótt um 35% endurgreiðslu og stór fyrirtæki um 25%. Þak þess kostnaðar sem telja má fram sem frádráttarbæran kostnað er 1.100 m.kr. Ef ekkert væri gert myndi stuðningurinn lækka í 20% fyrir öll fyrirtæki um áramót og hámarksþak vegna kostnaðar í 900 m.kr. Í ljósi þess mikla vaxtar sem er í stuðningskerfinu og í samræmi við stefnumörkun í fjármálaáætlun er lagt til að endurgreiðsluhlutfall verði 34% til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og 22,5% til stórra fyrirtækja. Þak á frádráttarbærum kostnaði verður 1 ma.kr. nái frumvarpið fram að ganga. Þannig verður hámarksstuðningur til lítilla og meðalstórra fyrirtækja 340 m.kr. og 225 m.kr. til stórra fyrirtækja. Áætlað er að um 80% stuðningsins renni til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og 20% til stórra fyrirtækja. Breytingin tekur gildi fyrir rekstrarárið 2025 og er stuðningur vegna þess árs greiddur út árið 2026.

Meðfylgjandi mynd sýnir áætlaðan útgjaldavöxt miðað við ofangreindan stuðning og forsendur fjármálaáætlunar. Eins og sjá má er áætlaður útgjaldavöxtur meiri en forsendur áætlunarinnar miðast við. Gert er ráð fyrir að aðrar breytingar í frumvarpinu sem og aukið eftirlit, hægi á útgjaldavextinum og brúi þetta bil. Með því móti er stuðlað að markvissari stuðningi. Áformaðar breytingar eru fyrsti áfanginn í því að stíga þau skref að tryggja sjálfbærni kerfisins og aukna skilvirkni í samræmi við ábendingar OECD. Stefnt er að heildarendurskoðun laganna á næstu 1-2 árum.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta