Fjórði leiðtogafundur Norðurlandanna og Úkraínu fór fram á Þingvöllum
Forsætisráðherrar Norðurlandanna og forseti Úkraínu funduðu í gær á Þingvöllum. Um var að ræða fjórða leiðtogafund Norðurlandanna og Úkraínu en sá fyrsti fór fram vorið 2023.
Í yfirlýsingu fundarins heita Norðurlöndin áframhaldandi stuðningi við Úkraínu eins lengi og þörf krefur. Norðurlöndin lýsa yfir fullum stuðningi við siguráætlun Úkraínu og munu leggja sitt af mörkum til að hún nái fram að ganga. Norðurlöndin ítreka að framtíð Úkraínu liggi í aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra átti síðdegis í gær fund með Volodómír Selenskí, forseta Úkraínu, í Þingvallabænum. Á fundinum ítrekaði forsætisráðherra áframhaldandi stuðning Íslands við Úkraínu og baráttuna fyrir réttlátum friði.
Rætt var um stöðuna og horfur í stríðinu og samstarfsverkefni Íslands og Úkraínu. Selenskí gerði grein fyrir siguráætlun Úkraínu og ræddi mikilvægi þess að stuðningur alþjóðasamfélagsins skili sér á sviðum þar sem þörfin er mest.
Forsætisráðherra segir það heiður að hafa tekið á móti forseta Úkraínu og norrænu forsætisráðherrunum á Þingvöllum sem séu sannarlega vagga lýðræðisins á Íslandi.
„Það var því sérstaklega viðeigandi að funda þar um varnir gegn innrásarstríði Rússa í Úkraínu, sem snýst beinlínis um að ráðast gegn öllum þeim gildum sem sjálfstæði og fullveldi okkar Íslendinga byggist á.“
Myndir frá fundi forsætisráðherra og forseta Úkraínu
Myndir frá leiðtogafundi Norðurlandanna og Úkraínu
Upptaka af blaðamannafundi forsætisráðherra Norðurlanda og forseta Úkraínu