Starfshópur leggur til þrepaskipta rannsókn til að meta fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók í dag við skýrslu starfshóps sem var falið að kanna fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja. Starfshópurinn kynnti skýrsluna á opnum kynningarfundi í ráðuneytinu fyrr í dag.
Starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að ávinningur af jarðgöngum sé mikill, ekki síst vegna mikils tímasparnaðar vegfarenda og aukinnar umferðar ferðamanna. Hópurinn telur einnig að veggjöld geti staðið undir kostnaði við mannvirkið í heild eða að hluta verði það fjármagnað sem samvinnuverkefni, líkt og var gert með Hvalfjarðargöng.
Tillaga um rannsókn í fjórum þrepum
Starfshópurinn leggur til þrepaskipta rannsókn á svæðinu á jarðlögum og hafsbotni á fyrirhugaðri gangaleið áður en unnt er að leggja fram nýtt mat á stofnkostnaði og fýsileika jarðganga. Í hverju þrepi muni bætast við þekking á jarðlögunum og þannig megi taka upplýsta ákvörðun hvort forsvaranlegt sé að ráðast í næstu rannsóknarþrep m.v. fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöður hverju sinni.
Þrepin eru fjögur en hvert þeirra gæti tekið um 6-12 mánuði í framkvæmd (áætlaður kostnaður):
- Kjarnaborhola boruð í Vestmannaeyjum (60 m.kr.)
- Kjarnaborhola boruð í Landeyjum (60 m.kr.)
- Berglagarannsókn framkvæmd og kortlagning hafsbotns yfir gangaleið með mælingum frá skipi (80 m.kr.)
- Nákvæmar jarðlagamælingar (2D seismic) með sérhæfðu rannsóknarskipi (340 m.kr.)
Samhliða rannsóknum á jarðlögum leggur starfshópurinn til að gerð verði félagshagfræðileg rannsókn á áhrifum jarðganga á sveitarfélögin, atvinnuumhverfið, ferðamennsku o.fl. til að varpa frekara ljósi á þýðingu þeirra fyrir samfélagið.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra: „Það er gagnlegt að fá skýrsluna í hendur eftir vandaða vinnu starfshópsins. Þess var ekki að vænta að skýrslan gæfi afdráttarlausa niðurstöðu af eða á en skýrslan útilokar á hinn bóginn heldur ekkert. Ávinningur er slíkur að það er ábyrgðarhluti að gera ekkert. Ég tel að það væri eðlilegt að undirbúa fyrsta þrep rannsóknanna sem starfshópurinn leggur til. Þetta er þó verkefni af því tagi að eðlilegt er að ný ríkisstjórn taki endanlega ákvörðun,“ sagði ráðherra þegar skýrslan hafði verið kynnt.
Um starfshópinn
Innviðaráðherra skipaði starfshópinn í september 2023. Hlutverk hópsins var að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur jarðganga milli lands og Vestmannaeyja og meta arðsemi framkvæmdarinnar. Þá var hópnum falið að leggja fram og kostnaðarmeta áætlun um jarðfræðilegar rannsóknir, og aðrar rannsóknir, sem framkvæma þarf, svo unnt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika framkvæmdarinnar.
Í starfshópnum sátu þau Kristín Jónsdóttir, sem var formaður, og Freysteinn Sigmundsson, bæði tilnefnd af ráðherra, Gylfi Sigfússon, tilnefndur af Vestmannaeyjabæ, Freyr Pálsson, tilnefndur af Vegagerðinni og Anton Kári Halldórsson, tilnefndur af Rangárþingi eystra. Björn Ágúst Björnsson starfaði með hópnum.
- Skýrsla starfshópsins (pdf)
- Glærur á kynningarfundi starfshópsins (pdf)
- Upptaka af kynningarfundi um skýrslu starfshópsins - 29. okt. 2024