Hoppa yfir valmynd
29. október 2024 Innviðaráðuneytið

Undanþága um skuldaviðmið vegna eignar sveitarfélaga í orkufyrirtækjum framlengd

Innviðaráðherra hefur undirritað reglugerð um að framlengja undanþágu þess efnis að við útreikning á skuldaviðmiði sveitarfélaga verði heimilt að horft sé framhjá tekjum, gjöldum og skuldum orku- og veitufyrirtækja í eigu sveitarfélaganna. Undanþágan er framlengd tímabundið, eða til ársins 2030. Reglugerðin var fyrst kynnt í samráðsgátt 14. október sl.

Undanþágan tók fyrst gildi árið 2012, skömmu eftir að gildandi sveitarstjórnarlög voru sett, og átti að gilda til tíu ára eða til 1. janúar 2022. Tilgangur hennar í upphafi var að veita sveitarfélögum svigrúm til að aðlagast nýjum skuldaviðmiðum vegna eignar sinnar í orkufyrirtækjum. Þegar reglan féll úr gildi árið 2022 voru áhrif þess ekki greind sérstaklega. Það var m.a. vegna þess að á árunum 2020-2025 voru settar reglur sem heimiluðu sveitarstjórnum að víkja frá viðmiðum skulda- og jafnvægisreglna vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á afkomu sveitarfélaga.

Liðkar fyrir fjárfestingum orku- og veitufyrirtækja

Tilgangurinn með að framlengja undanþágunni nú er að liðka fyrir fjárfestingum orku- og veitufyrirtækja. Starfssvæði sumra veitufyrirtækja eru utan þeirra sveitarfélaga sem eiga fyrirtækin. Fjárbinding orku- og veitufyrirtækja er einnig allt önnur og meiri en almennt gildir um A-hluta sveitarfélaga og eignarhald á þeim getur sett fjárfestingum verulegar skorður í gegnum skuldaregluna. Sem dæmi þjónustar Orkuveita Reykjavíkur fjölmörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi en er í eigu þriggja sveitarfélaga, Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar og Reykjavíkurborgar.

 Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lagðist ekki gegn tímabundinni framlengingu undanþágunnar í umsögn sinni um reglugerðarbreytinguna. Eftirlitsnefndin telur á hinn bóginn að endanleg ákvörðun um fyrirkomulag hennar þurfi víðtækara samráð og greiningu. 

Með reglugerðinni er undanþágan framlengd tímabundið, eða til ársins 2030. Þegar þau tímamörk voru sett var m.a. horft til þess að það rúmaði að minnsta kosti eitt lögbundið áætlunartímabil sveitarstjórnarlaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta