5,1% verðbólga í október – hjaðnar í takt við spár
Verðbólga í október mælist 5,1% og minnkar úr 5,4% í september í takt við spár greiningaraðila. Verðbólga hefur ekki verið jafn lítil í þrjú ár. Hjöðnunin í október var drifin af minni hækkun húsnæðisverðs, en verðbólga án húsnæðis mælist 2,8% annan mánuðinn í röð. Spenna á húsnæðismarkaði virðist loks fara minnkandi.
Lækkun verðbólgu og afgreiðsla fjárlaga með nægu aðhaldi styður við vaxtalækkun í nóvember
Enn er verðbólga töluvert lægri en samkvæmt síðustu spá Seðlabankans frá ágúst. Hraðari hjöðnun verðbólgu en þar var spáð studdi við þá ákvörðun peningastefnunefndar að lækka vexti í október. Næsta ákvörðun peningastefnunefndar verður kynnt 20. nóvember nk. Það að verðbólga minnki nú áfram, og sé umtalsvert lægri en Seðlabankinn spáði í ágúst að hún yrði að meðaltali á 4. ársfjórðungi (5,8%), eykur líkurnar á því að vextir verði aftur lækkaðir í nóvember. Á móti vegur óvissa um aðhaldsstig ríkisfjármála. Verði fjárlög afgreidd með því aðhaldi sem boðað er í fjárlagafrumvarpi áður en peningastefnunefnd kemur saman 18.-19. nóvember er sú óvissa minni.
Kílómetragjald tekið með í VNV – mjög ólíklegt að það hafi áhrif á stýrivexti
Samhliða birtingu VNV kynnti Hagstofan þá ákvörðun að kílómetragjald á alla bíla muni telja með í vísitölu neysluverðs. Undanfarna mánuði hafði ríkt óvissa um þetta sem hafði m.a. áhrif á verðlagningu verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Hagstofan vísar til þess að þar sem gjaldið er háð notkun á vegum, þ.e. greitt er í réttu hlutfalli við fjölda ekinna kílómetra, verði að líta á gjaldið sem veggjald, en veggjöld eru almennt talin með í vísitölu neysluverðs. Peningastefnunefnd hefur verið skýr um það að hún líti fram hjá mögulegum áhrifum kílómetragjalds á VNV við vaxtaákvarðanir og ólíklegt að frá því verði vikið.
Minni hækkun húsnæðisverðs – leiguverð lækkað tvo mánuði í röð
Húsnæðisliðurinn vó þyngst til lækkunar á árstakti verðbólgunnar.. Húsnæði í VNV hækkaði um 0,19% á milli mánaða; reiknuð húsaleiga hefur ekki hækkað minna í um eitt ár. Spenna á húsnæðismarkaði virðist hafa minnkað undanfarið eftir því sem áhrif vegna Grindavíkur fjara út og uppsöfnuð áhrif vaxtahækkana og almennrar kólnunar hagkerfisins bíta í meiri mæli. Enn er mikið framboð íbúða til sölu og fjöldi nýbyggðra íbúða er svipaður það sem af er ári eins og í fyrra á sama tíma og dregið hefur úr aðflutningi fólks til landsins. Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað tvo mánuði í röð, að vísu í kjölfar mikilla hækkana á fyrri helmingi ársins. Áhrifa þess í húsnæðislið VNV gætir með töf.