Stór skref stigin í málefnum hinsegin fólks
Stór skref hafa verið stigin í málefnum hinsegin fólks á fyrri helmingi gildistíma þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks frá árinu 2022. Eitt þeirra felst í því að óheimilt verður að hafna blóðgjöfum á grundvelli kynhneigðar frá 1. júlí árið 2025. Samtímis verður hafin skimun á þremur blóðbornum smitsjúkdómum, þ.e. lifrabólgu B, lifrabólgu C og eyðniveiru 1 og 2.
Afnám mismununar gagnvart blóðgjöfum á grundvelli kynhneigðar mun væntanlega fela í sér hærri stöðu Íslands á Regnbogakorti ILGA-Europe við næstu uppfærslu kortsins í vor. Regnbogakortið varpar ljósi á réttindastöðu hinsegin fólks í Evrópu. Ísland er í öðru sæti á eftir Möltu á Regnbogakortinu með rúmlega 83% einkunn.
Annað mikilvægt skref í aðgerðum innan aðgerðaáætlunarinnar felst í því að stuðlað hefur verið að faglegri heilbrigðisþjónustu við trans fólk á Landspítala með því að miða þjónustuna við alþjóðlegar leiðbeiningar WPATH (The World Professional Association For Transgender Health). Með sama hætti hefur þjónusta transteymis spítalans verið færð af geðsviði yfir á lyflækningasvið spítalans.
Jafnframt má nefna að sett hefur verið reglugerð um kynhlutlaus salerni og sérklefa í íþróttamannvirkjum í nýbyggingum eða við meiriháttar breytingar á húsnæði.
Af öðrum mikilvægum skrefum má nefna að unnið hefur verið fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi ásamt því að útbúnar hafa verið leiðbeiningar fyrir þá sem bera ábyrgð á slíku starfi. Þá hafa verið haldnir fjórir fræðslufundir fyrir pólitíska fulltrúa og starfsmenn sveitarfélaganna um málefni hinsegin fólks.
Góður gangur er í vinnslu fjölmargra annarra aðgerða innan aðgerðaáætlunarinnar. Áætlunin felur í sér 21 tölusetta aðgerð stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks og nær til loka ársins 2025.