Hoppa yfir valmynd
31. október 2024 Forsætisráðuneytið

Skýrsla starfshóps um innleiðingu velsældaráherslna í áætlanagerð og ákvarðanatöku stjórnvalda

Starfshópur sem ríkisstjórnin fól að vinna tillögur um markvissa innleiðingu velsældaráherslna ríkisstjórnarinnar í alla áætlanagerð stjórnvalda þ.m.t. gerð fjármálaáætlunar og frumvarps til fjárlaga, hefur skilað skýrslu til forsætisráðherra. Tillögur starfshópsins hafa verið ræddar á vettvangi ríkisstjórnar.

Starfshópurinn var skipaður fulltrúum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis. Hann gerir fimm tillögur um breytingar á verklagi við áætlanagerð í því skyni að bæta yfirsýn, styðja við markvissari innleiðingu velsældaráherslna ríkisstjórnarinnar við stefnumótun og ákvörðunartöku og tryggja að árangursmat og eftirlit með innleiðingu þeirra sé fyrir hendi. Tillögur starfshópsins taka mið af reynslu alþjóðastofnana og samanburðalanda um innleiðingu sérstakra áherslna í stefnumótun, áætlanagerð, ákvarðanatöku og eftirfylgni í ríkisfjármálum.

Í skýrslu starfshópsins er m.a. fjallað um stöðu og þróun safns félagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra mælikvarða um hagsæld og lífsgæði (velsældarvísar) sem forsætisráðuneytið í samstarfi við Hagstofu Íslands setti fram árið 2019. Mælikvörðunum er ætlað vera grundvöllur til að efla samþætta stefnumótun þvert á stjórnkerfið og meta langtímaáhrif af ákvörðunum stjórnvalda í tengslum við fjárlagagerð á lífsgæði fólks.

Mælikvarðarnir eru 40 talsins, taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru samanburðarhæfir við önnur lönd. Gert er ráð fyrir að áfram verði unnið að umbótum og þróun mælikvarðanna, einkum með hliðsjón af áformum stjórnvalda um gerð landsmælikvarða um sjálfbæra þróun. Með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum verður unnið að gerð mælaborðs sem nýtist bæði ráðuneytum og sveitarfélögum við stefnumótun og ákvarðanatöku.

Jafnframt er í skýrslunni gerð grein fyrir velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar og þeim áföngum sem þegar hefur verið náð við innleiðingu þeirra árið 2019. Áherslurnar eru eftirtaldar: andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlaus framtíð, gróska í nýsköpun og betri samskipti við almenning.

Skýrsla starfshóps um innleiðingu velsældaráherslna í áætlanagerð og ákvarðanatöku stjórnvalda

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta