Áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi – stöðumat
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ákvað á liðnu ári að ráðast í stöðumat á áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi og hvernig meðferðarkerfið á þessu sviði er í stakk búið til að þjóna hlutverki sínu. Leitað var til Geðráðs um útfærslu sem mæltist til að leitað yrði til erlends ráðgjafa. Til verksins var fenginn Dr. jur. Thomas Kattau, fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri Pompidou-hópsins sem er samstarfsvettvangur Evrópuráðsins á sviði vímuefnamála. Thomas hefur nú skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum og er hún birt hér með.
Í skýrslunni er meðferðarkerfið kortlagt og gerð grein fyrir þeim aðilum sem á einhvern hátt koma að meðferð einstaklinga með áfengis- og vímuefnavanda eða hafa með málefni þeirra að gera. Dr. Kattau heimsótti meðferðarstofnanir og veitendur þjónustu við þennan hóp, tók viðtöl við þjónustuveitendur og einnig við stjórnendur stofnana sem koma að stjórnun og stefnumótun á þessu sviði.
Fjallað er um styrkleika og veikleika íslenska meðferðarkerfisins og gerðar tillögur til úrbóta. Dr. Kattau segir að hér á landi hafi náðst umtalsverður árangur í því að draga úr vímuefnanotkun ungs fólks með markvissum forvarnaraðgerðum sem hafi stuðlað að aukinni vitund um vandann og stuðlað að heilbrigðara vali. Til að byggja á þeim árangri sé aftur á móti nauðsynlegt að takast á við ákveðnar kerfislægar áskoranir innan meðferðarkerfisins, efla samhæfingu, bæta aðgengi að þjónustu og auka gæði hennar. Þótt margt í núverandi kerfi sé gott megi ýmislegt bæta til að efla þjónustuna og gera hana skilvirkari. Hann leggur ríka áherslu á þörfina fyrir skýra stefnu hins opinbera í málaflokknum, líkt og nú er unnið að í starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í febrúar sl. Enn fremur sé mikilvægt að bæta gagnasöfnun og þar með upplýsingar um þörf og eftirspurn eftir meðferð. Slíkar upplýsingar séu nauðsynlegar til að skilja og takast á við verkefnið.
Skýrslan Review of treatment services for substance use disorders in Iceland er á ensku. Unnið er að íslenskri þýðingu á helstu niðurstöðum og tillögum sem þar koma fram og verða þær birtar hér innan skamms.