Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Þátttaka samstarfsráðherra Norðurlandarlanda á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Willum Þór Þórsson á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 2024 - myndMynd: Eyþór Árnason/norden.org

Willum Þór Þórsson, samstarfsráðherra Norðurlanda og heilbrigðisráðherra, hélt erindi og sat fyrir svörum á þingi Norðurlandaráðs í vikunni en hann hefur undanfarna daga sótt fundi í tengslum við 76. þing Norðurlandaráðs sem að þessu sinni fór fram í Reykjavík dagana 28. – 31. október, undir yfirskriftinni: „Friður og öryggi á norðurslóðum.“ Þingið fer með æðsta ákvörðunarvaldið innan norræns þingsamstarfs og er einstakur vettvangur fyrir svæðisbundið samstarf þar sem saman koma bæði þingfulltrúar Norðurlandaráðs og ráðherrar úr ríkisstjórnum Norðurlanda. Á þinginu koma allir 87 þingmenn Norðurlandaráðs saman, auk fjölda annarra þátttakenda. Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði í ár og hefur Bryndís Haraldsdóttir gegnt starfi forseta og Oddný G. Harðardóttir varaforseta.

Í erindi samstarfsráðherra þakkaði hann m.a. Norðurlandaráði fyrir gott og uppbyggilegt samstarf við gerð og mótun samstarfsáætlana ráðherranefnda sem taka munu gildi árið 2025, en vinna við þær hófst í formennsku Íslands í fyrra í Norrænu ráðherranefndinni. Einnig minntist hann á nokkur áherslumál Íslands í norrænu samstarfi, s.s. málefni barna og ungmenna, jafnrétti og hinsegin málefni, inngildingu, afnám stjórnsýsluhindrana einkum á stafræna sviðinu, svo sem sjálfvirk upplýsingaskipti milli þjóðskráa og aukna þjónustu þvert á landamæri, sem og samstarf í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

Dagskrá vikunnar hefur verið þéttskipuð. Á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda sl. mánudag var m.a. samþykkt áætlun um frjálsa för á Norðurlöndum fyrir árin 2025 til 2030, sem og umboð fyrir stjórnsýsluhindranaráðið fyrir næstu þrjú árin, 2025-2027. Afnám stjórnsýsluhindrana innan Norðurlanda hefur verið áhersluatriði í formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndinni á árinu, og er mikilvægur liður í því að gera Norðurlöndin að samþættasta svæði heims, sem er hluti af framtíðarsýn okkar 2030. Þá heimsóttu samstarfsráðherrar Norræna húsið í Reykjavík þar sem framkvæmdastjóri hússins fræddi um starfsemi og sögu hússins. Einnig funduðu samstarfsráðherrar með forsætisnefnd Norðurlandaráðs, fluttu skýrslur á þinginu um starf sitt og tóku þátt í fyrirspurnartíma þar sem þingmönnum á Norðurlandaráðsþinginu gafst kostur á að beina fyrirspurnum til samstarfsráðherranna. Þá funduðu vestnorrænir samstarfsráðherrar með forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins, um samvinnu á vestnorræna sviðinu. Samstarfsráðherra sótti einnig verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs, en vinningshafar í nokkrum flokkum voru kynntir í sjónvarpsþætti RÚV 22. október sl.

Willum Þór Þórsson samstarfsráðherra Norðurlanda: „Á þinginu var ánægjulegt að heyra stuðninginn við tillögu Norðurlandaráðs um aukna aðkomu og aðild Færeyja, Grænlands og Álandseyja að norrænu samstarfi í umræðu um breytingu á Helsingforssamningnum. Ísland hefur verið jákvætt fyrir því að þessi lönd fái aukið vægi í norrænu samstarfi. Löndin eru mikilvægir samherjar og þeirra rödd og framlag í norrænu samstarfi er þýðingarmikil.“

Á þinginu var kynnt sameiginleg formennskuáætlun Finnlands og Álandseyja fyrir árið 2025, sem ber yfirskriftina ,, Norðurlönd 2025: Sameinuð og sterk.“ Í henni er lögð áhersla á velferð barna og ungmenna, aukið almennt öryggi og aukna samkeppnishæfni. 

Um þing Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndina

Opinbert samstarf norrænu þjóðanna fer fram innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, þar sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, eru aðilar. Norðurlandaráð er vettvangur þingmanna í þessu samstarfi og einn af hápunktum norrænna stjórnmála er Norðurlandaráðsþingið ár hvert. Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman og fer Svíþjóð með formennsku á árinu. Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna. Nýlegar voru kynntar samstarfsáætlanir ráðherranefnda sem munu taka gildi á árinu 2025. Þær innihalda sameiginlegar áherslur, skýra forgangröðun og markvissar aðgerðir, munu vera leiðbeinandi fyrir starfið í Norrænu ráðherranefndinni til ársins 2030.

 

  • Samstarfsráðherrar Norðurlanda - mynd
  • Willum Þór og Jessica Rosencrantz - mynd
  • Fundur norrænna samstarfsráðherra á Norðurlandaþingi í Reykjavík 2024 - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta