Stutt við Litlu upplestrarkeppnina
Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, fá styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til að reka áfram Litlu upplestrarkeppnina. Litla upplestrarkeppnin er fyrir 4. bekk grunnskóla og er ætlað að bæta árangur í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu.
Lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni og samvinnu við foreldra og kennara. Keppt er í lestri og framkomu. Allir nemendur eru með í liðinu, allir koma fram á lokahátíð og allir fá viðurkenningarskjal í lokin.
Verkefnið hófst fyrir 15 árum síðan og fer af stað á Degi íslenskrar tungu hinn 16. nóvember ár hvert.
Aðsókn hefur verið góð með um þrjú þúsund skráða keppendur á síðasta ári og þátttöku margra sveitarfélaga.
Keppnin er undanfari Stóru upplestrarkeppninnar sem er fyrir 7. bekk grunnskóla og haldin á vegum sveitarfélaga, áður samtakanna Radda, og var árum saman styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hún fellur vel að áherslum ráðuneytisins í menntaumbótum og menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.