Tillaga að framtíðarsýn um vísindi, tækniþróun og nýsköpun kynnt
Vísinda- og nýsköpunarráð hefur skilað tillögu að framtíðarsýn stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar til tíu ára. Hana má nálgast hér að neðan.
Tillaga ráðsins fjallar m.a. um hvernig megi styrkja stoðir íslensks nýsköpunar- og rannsóknaumhverfis, efla bæði hagnýtar rannsóknir og áhugadrifnar grunnrannsóknir sem og að stuðla að framúrskarandi menntakerfi. Tillagan hefur verið rædd í ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun.
Ráðherranefndin samræmir stefnu stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar sem birta skal í tvennu lagi, annars vegar framtíðarsýn til 10 ára sem endurskoðuð skal á fjögurra ára fresti og hins vegar aðgerðaáætlun til tveggja ára í senn. Ráðherranefndin heldur að jafnaði tvo fundi árlega með Vísinda- og nýsköpunarráði.
Forsætisráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið birtu drög tillögunnar í samráðsgátt stjórnvalda frá 18. september til 1. október sl. Markmið samráðsins var að kalla eftir sjónarmiðum helstu hagaðila og almennings og um leið stuðla að upplýstri umræðu um mikilvægi vísinda, tækni og nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag, lausn samfélagslegra áskorana og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Alls bárust 14 umsagnir og gerði Vísinda- og nýsköpunarráð í framhaldinu margvíslegar breytingar á þeim drögum sem birt voru til samráðs. Enn fremur verður tekið mið af innsendum umsögnum við áframhaldandi vinnu að stefnumótun stjórnvalda.
- Tillaga Vísinda- og nýsköpunarráðs
- Ensk útgáfa tillögu Vísinda- og nýsköpunarráðs
- Samantekt um innsendar umsagnir við tillögu Vísinda- og nýsköpunarráðs, einnig birt í samráðsgátt stjórnvalda
Nánar um Vísinda- og nýsköpunarráð:
Vísinda- og nýsköpunarráð starfar sjálfstætt skv. lögum nr. 137/2022.
Ráðið fjallar um stöðu vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi með tilvísun til alþjóðlegrar þróunar í stefnumótun á sviðinu. Vísinda- og nýsköpunarráð er auk þess ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til ráðgjafar. Meðal verkefna ráðsins er að gera tillögur að framtíðarsýn og meginmarkmið stefnu stjórnvalda og setja fram rökstuddar tillögur að umbótum með tilvísun í alþjóðlega þróun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar.