Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Spáni
Utanríkisráðuneytið stendur fyrir sérstökum utankjörfundaratkvæðagreiðslum á tveimur stöðum á Spáni fyrir komandi Alþingiskosningar. Kjörfundirnir verða á Torrevieja og Tenerife, en töluverður fjöldi Íslendinga dvelst þar hverju sinni í styttri eða lengri tíma. Með þessu vill utanríkisráðuneytið auka þjónustu við íslenska ríkisborgara á svæðinu.
Á Tenerife verður kosið dagana 17. og 18. nóvember nk. og í Torrevieja verða haldnar utankjörfundaratkvæðagreiðslur á tímabilinu 20. – 22. nóvember nk. Nánari staðsetningar og tímasetningar fyrir báða staðina verða auglýstar síðar á Íslendingasíðum á Facebook.
Utanríkisráðuneytið flytur utankjörfundaratkvæði til Íslands
Utanrikisráðuneytið býður þátttakendum í ofangreindum utankjörfundaratkvæðagreiðslum að flytja atkvæði þeirra til Landskjörstjórnar á Íslandi. Athygli er vakin á því að kjósendur bera sjálfir ábyrgð á að koma atkvæðum sínum til Íslands kjósi þeir utan auglýstra kjörfunda.
Þá verður einnig hægt að sækja um vegabréf og/eða nafnskírteini sem ferðaskilríki á sama tíma, en bóka þarf slíkt í tíma. Hins vegar ef eingöngu á að kjósa, er nóg að mæta á kjörfund með viðurkennd skilríki.
Kjósendum er jafnframt bent á að kanna fyrirfram hvort og hvar þeir séu á kjörskrá á vef Þjóðskrár.