Dómsmálaráðherra setti ráðstefnu um almannavarnir
Árleg ráðstefna almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra var haldin á Hilton Reykjavík Nordica þann 31. október. Á ráðstefnunni var fjallað vítt og breitt um almannavarnarmál á Íslandi.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra opnaði ráðstefnuna með ávarpi og sagði meðal annars: „Frá því að ég tók við sem dómsmálaráðherra hef ég fengið tíu almannavarnarviðbrögð inn á mitt borð. Það segir mikið um álagið í okkar fallega landi sem getur samt oft sýnt á sér grimma hlið. Í öllum þessum atburðum hef ég fyllst stolti og öryggi að sjá og finna hve fagmannlegt og fumlaust allt viðbragð hefur verið.“
Dómsmálaráðherra notaði tækifærið og þakkaði viðbragðsaðilum fyrir þeirra óeigingjarna starf ásamt öllum þeim sem komu að skipulagningu ráðstefnunnar.
Dómsmálaráðherra sagði einnig:
„Við höfum náð eftirtektarverðum árangri. Við horfum þó stöðugt til þess að bæta almannavarnarkerfi okkar, umgjörð þess og framkvæmd. Markmiðið er að ná frekar árangri, með auknum undirbúningi, aukinni samstillingu og enn betri framkvæmd almannavarnaraðgerða.“
Ræðu dómsmálaráðherra í heild má sjá á vef dómsmálaráðuneytisins.
Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu, fór yfir heildarendurskoðun almannavarna sem nú stendur yfir og fyrirhugað frumvarp um endurbætt lög um almannavarnir. Í máli Rögnu kom fram að meginmarkmið frumvarpsins væru þrjú; að auka vægi fyrirbyggjandi aðgerða, marka skýra umgjörð um skyldur, verkaskiptingu og ábyrgð aðila almannavarnakerfisins á hættustundu og síðast en ekki síst að auka umfjöllun um endurreisn og marka viðmið um það hvenær jafnvægisástand telst komið á og hvenær hlutverki almannavarnakerfisins lýkur.
Á ráðstefnunni var rætt um það hvernig loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum. Undir lok dags sögðu tveir félagar úr lögreglunni frá sinni upplifun frá Flateyri og Súðavík eftir að snjóflóð féllu þar árið 1995 og báru það saman við stöðuna í dag.