Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Fundur dóms- og innanríkismálaráðherra í Lúxemborg 10. október 2024

Formlegur fundur ráðherra dóms- og innanríkismála fór fram innan hins hefðbundna Schengen-ráðs í Lúxemborg 10. október 2024. Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd og með í för voru Árni Grétar Finnsson, aðstoðarmaður ráðherra, og Gunnlaugur Geirsson, sendiráðunautur dómsmálaráðuneytisins í Brussel.

Fyrir fundinn var talið að ráðherrarnir myndu senda skýr skilaboð um hertari stefnu Evrópu í málefnum útlendinga. Fundurinn var haldinn í skugga þess að átta ríki samstarfsins höfðu nýlega tekið upp eða endurnýjað tímabundið eftirlit á innri landamærum, einkum með skírskotun til þess að ytri landamæri Evrópu væru ekki nægilega sterk til að stöðva komu fólks í óreglulegri för.

Sameiginlegur morgunverðarfundur NB8

Áður en formleg dagskrá ráðherrafundarins hófst var, að frumkvæði sænsku ráðherrana sem fara með dóms- og innanríkismál, haldinn óformlegur sameiginlegur morgunverður ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (e. Nordic-Baltic Cooperation, NB8). Markmið hans var að efla samstarf ríkjanna á sviði dóms- og innanríkismála.

Á fundi dóms- og innanríkisráðherra áréttaði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mikilvægi þess að auka skilvirkni endursendinga og að hugað yrði að virku eftirliti og endurskoðun á áritunarfrelsi þriðju ríkja sem sýna ekki samstarf við endurviðtöku á eigin ríkisborgurum. Hún undirstrikaði einnig mikilvægi þess að ríkin innleiddu komu- og brottfararkerfið sem fyrst því rafvæðing landamærastjórnunar myndi auka öryggi Evrópu og hafa jákvæð áhrif á komu fólks í reglulegri för. Hún undirstrikaði mikilvægi þess að auka samstarf við þriðju ríki, bæta eftirlit með áritunarfrelsi ríkja og útvíkka hlutverk Frontex.

Staða mála í Schengen: viðnámsþol ytri landamæra

Formleg dagskrá ráðherrafundarins hófst með kynningu Ylvu Johansson, fráfarandi framkvæmdastjóra innanríkismála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, á Schengen Barometer+ sem er yfirlit framkvæmdastjórnarinnar um heildarstöðuna innan Schengen-svæðisins. Yfirlitið, sem ekki er birt opinberlega, er gefið út tvisvar á ári og er ætlað að greina tiltekin atriði sem geta komið til með að hafa áhrif á svæðið í heild. Þannig mun framkvæmdastjórnin og aðildarríkin eiga auðveldara með að koma auga á veikleika innan svæðisins og hættur og glufur sem krefjast snöggra og samhæfðra viðbragða. Þessu samhliða voru einnig helstu forgangsmál Schengen-ráðsins fyrir næstu árlegu lotu (e. Schengen Council cycle 2024-2025) til umræðu, þ.e. að samhæfa og innleiða rafrænt verklag og stóru upplýsingatæknikerfin, að bæta samstarf við þriðju ríki og að auka vitund um aðstæður og þarfir innan svæðisins. Rauði þráðurinn í þessum forgangsmálum er svo kallað viðnámsþol ytri landamæra (e. resilience of external borders) sem er talið grundvallaratriði til að tryggja frjálsa för innan svæðisins. Þá er talið að sterk ytri landmæri komi í veg fyrir óreglulega för fólks, glæpum og blönduðum árásum. Viðnámsþol ytri landamæra hefur því verið lýst sem lykilforsendu þess að Schengen-samstarfið gangi smurt.

Nánar er fjallað um fundinn og stöðu þessara mála á svonefndri Brussel-vakt á vefsíðu sendiráðs Íslands í Brussel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta