Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fyrsta aðgerðaáætlun Íslands um gervigreind kynnt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda um gervigreind til ársins 2026. Þar eru tíundaðar þær aðgerðir sem stuðla munu að því að Ísland, í krafti smæðar sinnar, verði leiðandi í ábyrgri nýtingu gervigreindar og skapar tækifæri, velmegun og framfarir fyrir alla landsmenn. Áætlunina má nálgast hér að neðan, sem og greiningu á efnahagslegum tækifærum gervigreindar á Íslandi sem var unnin samhliða aðgerðaáætluninni.

„Gervigreind er ekki fjarlæg framtíð heldur nýtist hún okkur nú þegar til að bæta verulega árangurinn af störfum okkar og mér finnst mikilvægt að nota þessi tímamót til að hvetja alla sem ekki eru farnir að nýta sér einhver gervigreindartól til að gera það nú þegar. Veruleikinn er sá að gervigreind er að breyta um 75% allra starfa og samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi mun að miklu leyti ráðast af því hversu vel okkur tekst að tileinka okkur og nýta gervigreind. Til að ná settu marki munum við leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu þekkingar í gegnum menntakerfið, þróun öflugra stafrænna innviða og mótun skýrrar lagaumgjarðar. Þannig getur Ísland komist í fremstu röð í nýtingu gervigreindar með ábyrgð og siðferðisleg sjónarmið að leiðarljósi,“ segir Áslaug Arna.

Aðgerðaáætlunin byggir á fimm grunnstoðum. Fyrstu þrjár stoðirnar, þ.e. gervigreind í allra þágu, samkeppnishæft atvinnulíf og menntun í takt við tímann, byggja á stefnu Íslands um gervigreind frá árinu 2021. Við undirbúning nýju aðgerðaáætlunarinnar þótti ástæða til að bæta við tveimur nýjum stoðum: notkun gervigreindar hjá hinu opinbera og innleiðing gervigreindar í heilbrigðiskerfinu.

Meðal markmiða áætlunarinnar eru:

  • Aukin almenn þekking og færni á sviði gervigreindar, s.s. með fjölgun nemenda í gervigreindar- og gagnatengdum greinum á háskólastigi.
  • Að stafrænir innviðir fullnægi þörfum til hagnýtingar gervigreindar, s.s. með áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptainnviða og aðgangi að reiknigetu.
  • Betri þjónusta, aukin skilvirkni og hagkvæmni í rekstri hins opinbera, s.s. með innleiðingu gervigreindarlausna í starfsemi hins opinbera.
  • Bætt heilbrigðisþjónusta með innleiðingu gervigreindar, s.s. með styrkjum til innleiðingar gervigreindarlausna í heilbrigðisþjónustu.
  • Stafræn, græn umbreyting með aðstoð gervigreindar, s.s. með stuðningi í gegnum opinbera áherslusjóði.

30% vinnutíma opinberra starfsmanna er hægt að sjálfvirknivæða

Í greiningu á efnahagslegum tækifærum gervigreindar á Íslandi kemur m.a. fram að um 55% starfa á Íslandi, eða um 130 þúsund manns, eru talin líkleg til að verða fyrir miklum áhrifum af gervigreind en alls verða um 75% starfa fyrir einhverjum áhrifum. Alþjóðlegar greiningar hafa jafnframt sýnt að opinberir starfsmenn verja að meðaltali 30% vinnutímans í verkefni sem mætti sjálfvirknivæða með aðstoð gervigreindar. Með því að nýta sér gervigreind getur starfsfólk, jafnt hjá hinu opinbera og í einkageiranum, forgangsraðað tíma sínum með öðrum hætti og aukið afköst sín um leið.

Verg landsframleiðsla gæti stóraukist

Árangur Íslands á þessu sviði mun ráðast af tveimur þáttum: annars vegar hversu öflug gervigreind verður og hins vegar hversu fljót almenn upptaka hennar verður á Íslandi. Í greiningunni eru teiknaðar upp fjórar sviðsmyndir sem sýna að verg landsframleiðsla á Íslandi gæti aukist um 0,8 til 6% árlega fram til ársins 2029, allt eftir því hvernig Íslandi mun farnast í þessum tveimur þáttum. Samanlagt jafngildir það 174 til 1450 milljörðum króna.

„Ávinningurinn af gervigreind nær þó langt út fyrir hefðbundna efnahagslega mælikvarða. Í opinberri þjónustu opnar hún möguleika á að efla skilvirkni stjórnsýslunnar og stuðla að persónumiðaðri þjónustu við hinn almenna borgara. Í heilbrigðiskerfinu getur hún orðið til þess að bæta sjúkdómsgreiningar og gera meðferðir markvissari. Í menntakerfinu opnar hún nýjar leiðir til einstaklingsmiðaðs náms og símenntunar. Þessi áhrif munu teygja sig inn í alla króka og kima samfélagsins og skapa grundvöll fyrir aukna velsæld og bætt lífsgæði allra landsmanna,“ segir Áslaug Arna.

Atvinnulífið á mikið undir að auka hæfni og getu starfsfólks

Með réttum hvötum geta stjórnvöld stuðlað að framtíð þar sem gervigreind stuðlar að fjölgun starfa og eykur almenn lífsgæði í samfélaginu. Greiningin sýnir að íslensk stjórnvöld ættu að skapa umhverfi þar sem fyrirtæki eru hvött til að nýta gervigreind til að bæta hæfni starfsmanna og leggja áherslu á að auka virði þeirra á vinnumarkaði.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa þannig sýnt fram á að meiri efnahagslegur ávinningur sé fólginn í því að nýta gervigreind til að efla starfsfólk frekar en að hafa sjálfvirknivæðingu að leiðarljósi. Verði sú leið farin við almenna innleiðingu gervigreindar í íslensku samfélagi, þ.e. að nýta gervigreind til að efla starfsfólk frekar en að fækka því, er áætlað að ávinningurinn verði um 500 milljörðum krónum meiri árið 2038 en ef öll áhersla yrði lögð á að nýta gervigreind til að fækka vinnandi höndum.

„Framtíð Íslands sem leiðandi þekkingarhagkerfi er björt. Við höfum nú þegar kortlagt leiðina fram á við og skilgreint skýr markmið. Með samstilltu átaki stjórnvalda, atvinnulífs, háskólasamfélags og almennings getum við gert Ísland að öflugu, samkeppnishæfu og framsæknu samfélagi. Gervigreind er ekki lengur framtíðartækni - hún er veruleiki dagsins í dag og við verðum að grípa tækifærið,“ segir Áslaug Arna.

Aðgerðaáætlun í samráðsgátt

Áhugasömum býðst að senda inn athugasemdir um aðgerðaráætlunina um gervigreind í samráðsgátt stjórnvalda, sem má nálgast með því að smella hér. Þá er hægt að kynna sér greininguna á efnahagslegum tækifærum gervigreindar á Íslandi í hlekknum hér að neðan.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta