Íslensku menntaverðlaunin 2024
Íslensku menntaverðlaunin 2024 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 5. nóvember. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Verðlaunin ná til allra skólastiga, sem og til listnáms og félags- og tómstundastarfs.
A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
Verðlaun veitt menntastofnun sem stuðlað hefur að umbótum er þykja skara fram úr.
Verðlaunin hlýtur Fellaskóli í Reykjavík fyrir fjölmenningarlega og skapandi kennsluhætti þar sem byggt er á virðingu fyrir félagslegum og menningarlegum margbreytileika.
Í Fellaskóla eru töluð um 30 tungumál og litið svo á að fjölbreytileikinn auðgi skólastarfið. Skólinn hefur, undanfarin ár, starfað markvisst að því að þróa sig áfram undir kjörorðinu Draumaskólinn Fellaskóli, en leiðarljós þess verkefnis felast í áherslu á málþroska og læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf.
B. Framúrskarandi kennari
Verðlaun veitt kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Verðlaunin í ár fær Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ, fyrir fjölbreytta og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn við kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Hrafnhildur Sigurðardóttir verðlaunahafi og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra/Mynd: Mummi Lú
Í umsögn um kennslu hennar segir meðal annars:
Hrafnhildur gerir hverja kennslustund að ævintýri, hvort sem um er að ræða hefðbundin verkefni eða í fjörunni, á kajak, í fjallgöngu eða í útieldun. Ósjaldan má sjá nemendur Sjálandsskóla setja upp tjöld í nágrenninu, hjóla upp í Heiðmörk eða skoða lífríkið í flæðamálinu.
Nemendur sem af einhverjum ástæðum hafa átt erfitt uppdráttar í skólanum hafa notið aðstoðar Hrafnhildar. Hún hefur einstakt lag á því að nálgast nemendur, styrkja þá félagslega og bæta líðan.
C. Framúrskarandi þróunarverkefni
Verðlaun fyrir verkefni sem þykir standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu.
Verðlaunin í ár fær Helgafellsskóli í Mosfellsbæ fyrir verkefnið Snjallræði sem er nýsköpunarverkefni sem nær frá leikskólastigi upp á unglingastig.
Markmiðið er að nemendur þjálfist í skapandi og gagnrýnni hugsun. Þarna reynir á samskipti og félagsfærni í gegnum raunveruleg vandamál, eins og að hanna ný samtökutæki, setja fram hugmyndir um draumaskólann, minnka plastmengun í hafinu, vinna gegn matarsóun, stuðla að auknu jafnrétti eða hvernig nemendur geti gert heiminn að betri stað.
Málfríður Bjarnadóttir, deildarstjóri við Helgafellsskóla, hefur stýrt þessu verkefni frá upphafi.
D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun
Verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.
Verðlaunin í ár koma í hlut Verkmenntaskóla Austurlands fyrir að að efna til samstarfs við grunnskólana í Fjarðabyggð um framboð á fjölbreyttum verklegum valgreinum. Öllum nemendum í 9. og 10. bekk grunnskólanna í sveitarfélaginu er boðið að sækja tvö verkleg námskeið í Verkmenntaskólanum. Meðal námskeiða sem nemendum hefur verið boðið að taka eru námskeið um húð og hár, myndbandsgerð, forritun, trésmíði, rafmagnsfræði, véltækni og málmsmíði.
Mikil ánægja hefur verið með verkefnið frá upphafi en það hófst fyrir þremur árum og hefur skilað auknum áhuga á iðn- og starfsnámi og aðsókn aukist jafnt og þétt.
E. Hvatningarverðlaun
Hvatningarverðlaun eru veitt til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
Hvatningarverðlaunin í ár fá þeir Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri, og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.
Sem dæmi má nefna að frá 2018 hafa þeir haldið úti vefsíðunni Snjallkennslan þar sem þeir hafa miðlað fjölbreyttum hugmyndum um notkun upplýsingatækni í kennslu, sett upp leiðbeiningar, kynnt öpp og forrit sem nýtast í námi og kennslu og verkefni sem hægt er að aðlaga mismunandi aðstæðum, ekki síst fyrir nemendur sem standa höllum fæti í námi. Þeir hafa leiðbeint kennurum um notkun gervigreindar og unnið að gerð verkfæra sem efla orðaforða og málskilning nemenda.
Í umsögn um framlag þeirra segir meðal annars að þeir hafi verið einstakar fyrirmyndir í notkun á rafrænum verkfærum sem gera líf nemenda, foreldra og skólafólks auðveldara og skilvirkara.
Að menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.
Mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið og Samtök iðnaðarins fjármagna verkefnið. Framlag mennta- og barnamálaráðuneytisins var aukið um eina milljón króna frá og með árinu 2024 samkvæmt ákvörðun ráðherra með það að augnamiði að styðja betur við verkefnið.
Eftir athöfnina á Bessastöðum undirrituðu þeir aðilar sem að verðlaununum standa nýtt samkomulag um verðlaunin.
Forseti lýðveldisins, mennta- og barnamálaráðherra, innviðaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins undirrita nýtt samkomulag um menntaverðlaunin/Mynd: Mummi Lú