Skýrsla forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og framtíðarhorfur vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga
Skýrslu forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga hefur verið dreift á Alþingi.
Á sunnudaginn, 10. nóvember, verður ár liðið frá því að Grindavík var rýmd í miklum náttúruhamförum. Fæstir íbúar hafa snúið aftur heim. Á þessum tímamótum ákvað forsætisráðherra að taka skyldi saman skýrslu um náttúruhamfarirnar, helstu verkefni stjórnvalda vegna þeirra og framtíðarhorfur, en ekki verður sérstök umræða um hana á Alþingi vegna takmarkaðs fundartíma í aðdraganda kosninga.
Auk þess að gefa yfirlit yfir helstu verkefni stjórnvalda og leggja mat á framtíðarhorfur er markmið skýrslunnar að treysta lýðræðislegan umræðugrundvöll vegna þeirra ákvarðana sem munu koma til kasta stjórnvalda á næstu misserum.
Í skýrslunni er dregið fram að viðbrögð og aðgerðir stjórnvalda til að styðja samfélagið í Grindavík hafi í öllum aðalatriðum skilað góðum árangri. Höfuðáhersla hafi verið lögð á að tryggja afkomu íbúa og leysa húsnæðisþörf þeirra. Þá hafi tekist að vernda byggð í Grindavík og mikilvæga orkuinnviði með byggingu varnargarða en forsenda þess hve hratt var hægt að ráðast í gerð þeirra hafi verið góður undirbúningur sem hafði þá staðið í nokkur ár.
Einnig er í skýrslunni farið yfir þau fjölmörgu félagslegu og fjárhagslegu úrræði sem staðið hafa Grindvíkingum til boða. Fram undan sé frekari stefnumörkun varðandi fyrirkomulag og gildistíma stuðningsúrræða. Huga þurfi sérstaklega að velferð barna og viðkvæmra hópa enda langtímaverkefni að vinna úr stórum áföllum.
Þá er ein af helstu niðurstöðum skýrslunnar sú að áframhaldandi jarðhræringar ógna byggð og innviðum á Suðurnesjum. Því þurfi stjórnvöld í vaxandi mæli að beina athygli sinni að því að styrkja áfallaþol og viðbragðsgetu á öllum Suðurnesjum og forgangsraða fjármunum og mannafla í þau verkefni.
Við vinnslu skýrslunnar var upplýsinga aflað frá öllum ráðuneytum auk Grindavíkurnefndar, Veðurstofunni, embætti landlæknis, almannavörnum, Náttúruhamfaratryggingu Íslands og Fasteignafélaginu Þórkötlu. Skýrslunni fylgja einnig álit og samantektir frá Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun og Félagsvísindastofnun auk yfirlits yfir áætlaðan kostnað ríkissjóðs á árunum 2023 og 2024 vegna eldsumbrota við Grindavík.