Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra tók þátt í 65 ára afmælishátíð Sjálfsbjargar

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndMynd: Steinunn Matthíasdóttir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flutti ávarp á afmælishátíð Sjálfsbjargar – landssambandi hreyfihamlaðra 6. nóvember síðastliðinn: „Í 65 ár hafið þið lagt á ykkur ómetanlega vinnu fyrir málefni hreyfihamlaðra á Íslandi með margvíslegum hætti, fyrir það ber að þakka“ sagði Willum m.a. í ávarpi sínu. Við þessi tímamót var einnig fagnað opnun á nýju húsnæði Kjarks endurhæfingar sem tekið var í notkun síðastliðið vor og styrkir enn frekar við öfluga og vaxandi endurhæfingarstarfsemi Kjarks.

„Sjálfsbjörg hefur frá upphafi barist fyrir grundvallarréttindum sem við í dag tökum sem sjálfsögðum hlut. Þið hafið unnið að fjölda verkefna með það að markmiði að tryggja fötluðum jöfn tækifæri,— og veitt mikilvæga að fræðslu og stuðning til fjölskyldna og einstaklinga“ sagði Willum m.a. í ávarpi sínu. Hann minntist einnig Jóhanns Péturs Sveinssonar, fyrrum formanns Sjálfsbjargar sem hefði orðið 65 ára 18. september sl.: „Með eldmóði sínum og ósérhlífni ruddi hann nýjar brautir og stuðlaði að auknu jafnrétti og þátttöku fatlaðs fólks í íslensku samfélagi.“ Jóhann Pétur lést langt fyrir aldur fram, 5. september árið 1994. Á afmælishátíð Sjálfsbjargar voru veittir styrkir úr minningarsjóði Jóhanns Péturs en markmið sjóðisins hefur jafnan verið að styrkja fólk með fötlun til náms og bæta aðgengi.

Sjálfsbjörg – landssamband hreyfihamlaðra á húsnæðið þar sem starfsemi Kjarks endurhæfingar fer fram. Flestir þekkja starfsemina undir heitinu Sjálfsbjargarheimilið en á liðnu ári var nafninu breytt til að endurspegla breyttar áherslur í starfseminni og heitir nú Kjarkur endurhæfing.

Við endurhæfingu Kjarks starfar þverfaglegt endurhæfingarteymi sem vinnur út frá einstaklingsmiðuðum markmiðum í þjónustunni, ásamt fagteymi sem styður notendur til að byggja upp það stuðningsnet sem nauðsynlegt er eftir útskrift. Þjónustan er veitt á tveimur stigum, bæði í sólarhringsendurhæfingu þar sem búsetan er hluti af endurhæfingunni, og í dagendurhæfingu. Þeir einstaklingar sem eru í endurhæfingu hjá Kjarki þurfa allir á langtímaendurhæfingu að halda og getur endurhæfing á hvoru þjónustustigi staðið í allt að 24 mánuði ef þess er þörf. Markhópur þjónustunnar eru einstaklingar á aldrinum 18-67 ára sem hafa hlotið skaða á miðtaugakerfi og þurfa áframhaldandi endurhæfingu eftir að frumendurhæfingu er lokið.

  • Afmæli Sjálfsbjargar - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta