Mál með vexti: Hvað ætlar þú að gera fyrir framtíð íslenskunnar?
„Það er ýmislegt að frétta af íslenskri tungu enda höfum við lagt ríka áherslu á tungumálið á undanförnum árum. Um hana er rætt á þingpöllum, á málþingum, í viðtölum, á samfélagsmiðlum, í heitu pottunum og í skólastofum af öllum stærðum og gerðum um land allt. Það er frábært!“ Á þessum orðum hefst greinargerðin, Mál með vexti - aðgerðir og verkefni í þágu íslenskrar tungu sem birt er í dag, daginn fyrir dag íslenskrar tungu sem haldin er hátíðlegur 16. nóvember árlega. Sjá dagskrá hér.
Í greinargerðinni er fjallað um forgangsmál, verkefni og aðgerðir sem tengjast íslenskunni. Grunnurinn að greinargerðinni er þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2024–2026 sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram og var samþykkt á Alþingi í sumar. Að baki þingsályktunartillögunni stóðu fjögur ráðuneyti sem helst koma að málefnum íslenskunnar, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og háskóla- iðnaðar- og vísindaráðuneyti, auk forsætisráðuneytisins. Ráðherra þessara fimm ráðuneyta mynduðu ráðherranefnd um íslenska tungu, sem sett var á stofn í nóvember 2022, og stendur að baki verkefninu. Í þingsályktuninni eru 22 aðgerðir sem eru á ábyrgð og forræði áðurnefndra ráðuneyta.
Fjöldi aðgerða í áðurnefndri aðgerðaráætlun íslenskrar tungu (sjá bls 10 – 40 í Mál með vexti) er þegar komin til framkvæmda og má sem dæmi nefna íslenskugáttina m.is
Dýrmæt auðlind
Fjallað er um mikilvægi stuðnings við íslenska tungu í stjórnarsáttmála. Þar er lögð áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Íslenskan sé dýrmæt auðlind sem eigi að vera skapandi og frjór hluti af umhverfinu. Tekið er sérstaklega fram að huga þurfi að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
„Ég fyllist bjartsýni fyrir hönd íslenskrar tungu þegar ég heyri fólk skutla fram skemmtilegum nýyrðum, kryfja enskuslettur, syngja nýja íslenska texta, tala íslensku með hreim eða þræta um málfræði. Aukin umræða um íslenskuna er mikilvægt merki um heilbrigði hennar og þróun,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Tungumálið er farvegur hugsana okkar
Hún segir einn virtasti málvísindamann fyrri hluta 19 aldar, Rasmus Kristján Rask hafa spáð því að íslenskan myndi deyja út vegna danskra áhrifa ef ekkert yrði aðhafst. Í kjölfarið fylgdi ný hreyfing sem vildi hreinsa dönsk áhrif úr íslensku. Sú hreyfing stuðlaði meðal annars að stóraukinni útgáfu rita á íslensku og vitundarvakningu meðal almennings gagnvart vandanum. Íslenskan er enn á lífi 200 árum síðar, þó vitanlega standi dönsk tökuorð og orðtæki eins og minnisvarðar í málinu.
„Tungumálið er farvegur hugsana okkar og lykilinn að sameiginlegum skilningi. Þess vegna þarf íslenskan að vera fyrst. Hún þarf að vera fremst, okkur efst í huga og allt umlykjandi. Það er verkefni sem vinnst með seiglu, ástríðu og því að vera opin fyrir hugmyndum og samvinnu og því þurfum við að spyrja okkur, hvað ætla ég að gera fyrir framtíð íslenskunnar? Einmitt afþví að við eigum hana öll saman, þurfum við að hlúa að henni sem sameiginlegu djásni svo hún lifi enn góðu lífi eftir önnur 200 ár,“ segir ráðherra og minnir á að dagur íslenskrar tungu sé frábær dagur til þess.
Smelltu hér til að lesa Mál með vexti.