Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ari Eldjárn hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Ari Eldjárn, Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri Hamraskóla, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra og Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar Vestmanneyjarbæjar. - mynd

Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitti í dag verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í 29. skiptið í Eddu. Verðlaunin eru veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Einvalalið íslenskunnar hefur hlotið verðlaunin gegnum árin, t.d. Vigdís Finnbogadóttir, Þórarinn Eldjárn, Steinunn Sigurðardóttir og Bragi Valdimar Skúlason, svo aðeins fáir séu nefndir.

Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til ráðherra um verðlaunahafa og rökstyður val sitt. Í ár var sú nýbreytni tekin upp á vef ráðuneytisins að gefa almenningi kost á að senda inn ábendingar um verðuga viðtakendur verðlauna og viðurkenningar.

Skoplítill eitt nýyrða Jónasar

Jónas Hallgrímsson var manna duglegastur að smíða ný orð á íslensku og ótal mörg þeirra eru í daglegri notkun í dag. Allir þekkja nýyrðin sjónauki, láréttur og tunglmyrkvi. Færri þekkja orðið skoplítill þótt það komi fyrir á 10.000 króna seðlinum. Það orð verður seint notað um 29. viðtakanda Jónasarverðlaunanna en rökstuðningu dómnefndar hljóðar svo:

„Það þykja nú engar fréttir að það sé komin ný Star Trek-mynd,“ skrifar kvikmyndagagnrýnandi Helgarpóstsins árið 1997 og heldur áfram: „[myndirnar] hafa runnið út á færibandi síðustu átján árin og verið hver annarri verri.“

Sá sem ritaði þessi orð hafði ekki aldur til að muna sjálfur eftir frumsýningu fyrstu Star Trek-myndanna, hann var bara fimmtán ára en hafði samt skrifað í blaðið í næstum því ár. Umræddur gagnrýnandi, Ari Eldjárn, hefur síðan orðið einn ástsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar. Í uppistandi sínu beinir hann gjarna sjónum að íslenskri tungu; sköpunarmætti hennar, afkáraleika, sérstöðu en líka skyldleika við önnur tungumál, ekki síst þau norrænu. Þá er Ari einstök eftirherma en hæfileikar hans eru ekki aðeins fólgnir í því að ná málrómi og sérkennum einstaklinga heldur hefur hann næmt eyra fyrir því sem einkennir málsnið þeirra og ólíkra hópa í samfélaginu.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2024 hlýtur Ari Eldjárn fyrir framlag sitt til íslenskrar uppistandsmenningar og fyrir að skemmta ungum sem öldnum á íslenskri tungu.

Við móttöku verðlaunanna lék Ari á alls oddi og sagði meðal annars skemmtilega frá því þegar honum var hrósað fyrir íslenskuhæfni sína af eldri konu í flugvél sem lofaði hann í bak og fyrir en á hann runnu tvær grímur þegar í ljós kom að hún hélt að hann væri Bragi Valdimar,  sem hlaut sömu verðlaun fyrir tveimur árum. „Ég ákvað að leiðrétta það ekkert,“ sagði Ari við mikinn hlátur viðstaddra.  Sjá myndband hér.

Kveikjum neistann

Auk verðlauna Jónasar Hallgrímssonar er á degi íslenskrar tungu veitt sérstök viðurkenning fyrir stuðning við íslenska tungu. Viðukenningarhafar hafa komið úr ýmsum áttum, Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum, Hljómsveitin Stuðmenn, Fréttastofa Útvarps og Tungumálatöfrar og nokkrum sinnum hafa þau fallið í skaut verkefna sem snúa að lestri landsmanna, ekki síst lestri yngri kynslóðarinnar. Stóra upplestrarkeppnin, Lestrarmenning í Reykjanesbæ, Lestrarhátíð í Bókmenntaborg og Skáld í skólum eru dæmi um það.

Sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu hljóta að þessu sinni aðstandendur og þátttakendur í þróunarverkefninu Kveikjum neistann við Grunnskólann í Vestmannaeyjum. En frá því að því var hleypt af stokkunum árið 2021 hefur það skilað eftirtektarverðum árangri hvað varðar bætta líðan nemenda en líka færni í lestri. Verkefnið er til 10 ára og er stutt af Vestmannaeyjabæ, Menntamálaráðuneytinu, Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Einn af áhugaverðustu þáttum verkefnisins er hvernig það samþættir áherslur í lestri, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og áhugahvöt. Lykillinn að góðum árangri nemenda í lestri þakka aðstandendur stöðumati, eftirfylgni, markvissri þjálfun og áskorunum miðað við færni. Að lokum má ekki gleyma samstilltu átaki nemenda og góðum kennurum.

Kveikjum neistann er þegar komið í útrás upp á fastalandið. Þannig hefur t.d. Kópavogsbær ákveðið að það verði tekið upp á næsta ári í bæjarfélaginu og mögulega verður þess ekki langt að bíða að neistinn verði kveiktur í fleiri bæjarfélögum.

Páll Magnússon og Anna Rós Hallgrímsdóttir tóku við viðurkenningu fyrir verkefnið Kveikjum neistann.Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar Vestmanneyjarbæjar og Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri Hamraskóla

Það var mikið hlegið þegar Ari Eldjárn flutti þakkarræðu sína.

Analdur Indriðason las úr nýútkominni bók sinni um ævi Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalok.

GDRN og Vignir Snær fluttu lag úr Málæði-verkefninu sem sýnt verður á RÚV í kvöld kl. 19:45

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta