Áfram stutt við nýsköpunarfyrirtæki og gjald sett á nikótínvörur
Alþingi samþykkti í dag frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. og taka breytingarnar gildi um áramót.
Í frumvarpinu var m.a. fjallað um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Var samþykkt að viðhalda stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og að gera varanlegt ákvæði um frádráttarbæran kostnað sem gilt hefur sem bráðabirgðaákvæði undanfarin ár. Verður endurgreiðsluhlutfallið 35% til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og 25% til stórra fyrirtækja. Þak á frádráttarbærum kostnaði verður 1,1 ma.kr.
Markmið laganna um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við rannsókna- og þróunarverkefni. Breytingunum sem nú hafa verið samþykktar er ætlað að viðhalda stöðu Íslands í fremstu röð meðal nýsköpunarríkja ásamt því að auka á skilvirkni og eftirlit með þessum mikilvæga opinbera stuðningi
Gjald tekið fyrir nikótínvörur
Þá var samþykkt að breyta lögum um gjald af áfengi og tóbaki á þann veg bætt verður við kafla um gjald á nikótínvörur, vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar fyrir rafrettur sem fluttar eru hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi. Notkun nikótínpúða hefur aukist hröðum skrefum hér á landi undanfarin ár, einkum hjá yngri aldurshópum. Á Íslandi hefur notkun á rafrettum einnig verið algengust á meðal ungs fólks. Um nokkurt skeið hefur verið kallað eftir að stjórnvöld bregðist við þessari útbreiddu notkun meðal ungs fólks á nikótínvörum sem, þrátt fyrir reglur um aldurstakmörk, sýnileikabann, bann við notkun og sölu á tilteknum stöðum, eykst frá ári til árs. Hafa þessi úrræði þótt duga skammt og að þörf sé á að grípa til frekari aðgerða til að sporna við aukinni notkun meðal barna og ungmenna.
Þeir sem greiða gjaldið eru aðilar sem flytja inn eða framleiða vörurnar.
Fjárhæð gjalds á vörur verður eftirfarandi:
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 1 til og með 8 mg/g: 8 kr. á hvert gramm vöru.
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 8,1 til og með 12. mg/g: 12 kr. á hvert gramm vöru.
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 12,1 til og með 16 mg/g: 15 kr. á hvert gramm vöru.
- Nikótínvörur þar sem styrkur nikótíns er á bilinu 16,1 til og með 20 mg/g: 20 kr. á hvert gramm vöru.
- Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda ekki nikótín: 40 kr. á hvern millilítra vöru.
- Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur þar sem styrkur nikótíns er 12 mg/ml eða lægra: 40 kr. á hvern millilítra.
- Vökvar í einnota rafrettur og vökvar til áfyllingar fyrir rafrettur þar sem styrkur nikótíns er 12,1 mg/ml eða hærra: 60 kr. á hvern millilítra vöru.
Innviðagjald á skemmtiferðaskip í millilandasiglingum
Einnig var samþykkt að leggja innviðagjald á skemmtiferðaskip í millilandasiglingum sem greitt verður fyrir hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins. Innviðagjaldið verður 2.500 kr. fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring. Breytingartillagan tekur mið af ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030 sem kom fram í þingsályktun menningar- og viðskiptaráðherra og var samþykkt á Alþingi í júní. Þar kemur fram að innleiða skuli löggjöf um sérstaka gjaldtöku, innviðagjald, sem lagt verði á komur erlendra skemmtiferðaskipa. Með gjaldtökunni er ætlunin að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Rafhjólakaup áfram styrkt
Undanfarin ár hefur verið til staðar VSK-ívilnun sem tekur til 1) rafmagns- og vetnisbifhjóla, 2) léttra bifhjóla og reiðhjóla sem knúin eru með rafmagni og 3) hefðbundinna reiðhjóla og rafmagnshlaupahjóla. en sú heimild fellur úr gildi um áramót. Til að halda áfram að styðja við notkun vistvænna samgöngumáta samþykkti Alþingi að beina því til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að styrkja kaup einstaklinga á rafmagnshjólum í gegnum Orkusjóð. Mun ráðherra útfæra reglur um úthlutun styrkja til kaupa á slíkum samgöngutækjum fyrir 1. janúar 2025. Gert verði ráð fyrir sama umfangi verkefnisins árið 2025 og 2024 eða um 500 milljónum króna.