Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2023

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2023. Álögð gjöld á lögaðila nema 308,2 ma.kr. og hækka um 25,3 ma.kr. á milli ára. Stærstu einstöku breytingarnar er að finna í tryggingagjaldi sem hækkar um 15,6 ma.kr. á milli ára og þar á eftir kemur tekjuskattur lögaðila sem hækkar um 8,0 ma.kr. frá fyrra ári. Tryggingagjald og tekjuskattur lögaðila mynda meginþorra þeirra opinberu gjalda sem lögð eru á lögaðila. Stærsta hlutfallslega breytingin á álögðum gjöldum er í sérstaka fjársýsluskattinum sem hækkar um 15,3% milli ára. Heilt yfir er hækkun á öllum álögðum gjöldum. Rétt er að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu sem getur tekið breytingum síðar.

Gjaldskyld félög eru 54.532 talsins og fjölgar um 4,8% milli ára. Mesta fjölgunin er í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem félögum fjölgar um 554 frá fyrra ári. Áfram er góður gangur við skil á framtölum þar sem 86,4% framtala var skilað áður en álagning fór fram. Það er í takt við skil framtala undanfarin 5 ár. Bætt skil eru til þess fallin að fækka kærum og endurákvörðunum og skapast því meiri vissa um að álagning opinberra gjalda á lögaðila skili sér í ríkissjóð.

Útborgun frá ríkinu til lögaðila í tengslum við álagninguna nemur 33,8 ma.kr. samanborið við 26,6 ma.kr. árið á undan. Er þar einkum um að ræða annars vegar stuðning ríkisins við rannsóknir og þróunarstarf fyrirtækja og hins vegar leiðréttingu á ofgreiddum sköttum í formi fyrirframgreidds tekjuskatts fyrr á þessu ári og afdregins fjármagnstekjuskatts í staðgreiðslu 2023. Áður en til endurgreiðslu kemur er skuldajafnað og nemur sú skuldajöfnun 7,5 ma.kr.

Álögð gjöld Fjöldi
m.kr. 2023 2024 Br. % br. 2023 2024 Br.
Tekjuskattur 141.857 149.879 8.022 5,7% 19.126 20.842 1.716
Fjármagnstekjuskattur 2.635 2.729 94 3,6% 832 815 -17
Útvarpsgjald 984 1.059 76 7,7% 48.693 50.684 1.991
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki 5.893 6.217 324 5,5% 4 4 0
Fjársýsluskattur 3.416 3.750 334 9,8% 113 111 -2
Sérstakur fjársýsluskattur 6.106 7.038 932 15,3% 9 12 3
Tryggingagjald* 121.992 137.549 15.557 12,8% 25.623 26.827 1.204
Alls 282.921 308.221 25.301 8,9%
Fjöldi gjaldskyldra félaga 52.059 54.532 2.473
*Markaðsgjald og iðgjald slysatryggingar sjómanna eru hér talin með í tölum um tryggingagjald.

Tekjuskattur lögaðila

Álagður tekjuskattur nemur 149,9 ma.kr. og hækkar um 8,0 ma.kr. milli ára sem er 5,7% hækkun. Gjaldendur tekjuskatts eru 20.842 og fjölgar um 9% frá fyrra ári. Frá 2021 hefur gjaldendum tekjuskatts fjölgað um 28%. Líkt og fyrri ár eru það fyrirtæki í fjármála- og vátryggingastarfsemi sem greiða hlutfallslega mest í tekjuskatt af öllum atvinnugreinum. Þar á eftir koma fyrirtæki rafmagns-, gas- og hitaveitna en hlutdeild þeirra lækkar töluvert milli ára sem má að stórum hluta rekja til hagnaðar sem myndaðist við sölu Landsvirkjunar á Landsnet til ríkisins undir lok árs 2022 og kom fram í álagningu 2023. Hlutdeild félaga sem starfa við framleiðslu dregst saman úr 14,0% í 12,5% þar sem álagður tekjuskattur dróst saman um 5% og munar þar mest um samdrátt í greiddum tekjuskatti félaga sem starfa við framleiðslu á járni, stáli og járnblendi. Hlutdeild byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar eykst þar sem álagður tekjuskattur jókst um 24% á milli ára. Af þeim liðum sem falla undir annað í töflunni fyrir neðan má nefna vöxt í tekjuskatti félaga í rekstri gististaða og veitingastarfsemi sem og menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi.

Tekjuár
Tekjuskattur, hlutfall af heild 2022 2023
Fjármála- og vátryggingastarfsemi 21,6% 24,4%
Rafmagns-, gas- og hitaveitur 21,5% 13,2%
Framleiðsla, m.a. vinnsla sjávarafurða og stóriðja 14,0% 12,5%
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 7,6% 8,9%
Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum 8,7% 8,4%
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi 5,2% 5,6%
Annað 21,5% 27,0%
Samtals 100,0% 100,0%

Fjármagnstekjuskattur

Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undan-þegnir almennri tekjuskattskyldu greiða fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á þessa lögaðila í álagningu 2024 nemur 2,7 ma.kr. og hækkar um 3,6% frá fyrra ári. Samtals fá 815 lögaðilar álagðan fjármagnstekjuskatt.

Útvarpsgjald

Útvarpsgjald ársins 2024 er 20.900 kr. og leggst á skattskylda lögaðila að undanskildum dánarbúum og þrotabúum. Álagt útvarpsgjald á lögaðila nemur 1,1 ma.kr. og hækkar um 7,7% á milli ára. Gjaldendum þess fjölgar um 1.991 frá fyrra ári og eru 50.684.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“)

Skattstofn sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki eru heildarskuldir viðkomandi lögaðila yfir 50 ma.kr. í lok hvers árs og er skatthlutfallið 0,145%. Fjögur fjármálafyrirtæki fá þennan skatt álagðan og greiða samtals 6,2 ma.kr. sem er 5,5% hækkun milli ára.

Fjársýsluskattur

Á fjármála- og tryggingafyrirtæki er lagður fjársýsluskattur þar sem skattstofninn samanstendur af öllum tegundum launa og þóknana og skatthlutfallið er 5,5%. Álagning fjársýsluskatts, sem er innheimtur í staðgreiðslu nemur 3,7 ma.kr. og hækkar um 9,8% milli ára. Gjaldendur eru 111 en voru 113 árið áður.

Sérstakur fjársýsluskattur

Á hagnað fjármálafyrirtækja, þ.m.t. tryggingafélaga, sem er umfram 1 ma.kr. leggst 6% sérstakur fjársýsluskattur. Samkvæmt álagningartölum ríkisskattstjóra er sérstaki fjársýslu¬skatturinn 7,0 ma.kr. á árinu og hækkar um 15,3% á milli ára. Gjaldið er greitt af 12 lögaðilum og fjölgar um þrjá frá fyrra ári.

Tryggingagjald

Álagning tryggingagjalds á launagreiðslur ársins 2023 nemur 137,5 ma.kr. og hækkar um 12,8% á milli ára. Á sama tíma fjölgaði gjaldendum tryggingagjalds um 1.204 eða um 4,7%. Auknar launagreiðslur og fjölgun starfandi fólks skýra hækkun tryggingagjaldsins.

Stuðningur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Stuðningur ríkissjóðs til fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nemur alls 16,0 ma.kr. samkvæmt álagningunni í ár og hækkar um 2,1 ma.kr. milli ára eða um 15%. Stuðningurinn sem hlutfall af heildarkostnaði sem og hámark styrkhæfs kostnaðar voru hækkuð umtalsvert árið 2020 og síðan þá hafa lítil og meðalstór fyrirtæki geta fengið 35% af kostnaði við rannsóknir og þróun í skattaafslátt en stór fyrirtæki 25% að hámarki 1,1 ma.kr. Á síðustu 5 árum hefur stuðningurinn aukist um 208% að nafnvirði.

Ef fyrirtæki skilar hagnaði umfram yfirfæranlegt tap þannig að tekjuskattur sé lagður á, gengur stuðningurinn upp í tekjuskatt en er annars útgreiðanlegur að fullu. Útborgunin í ár er að upphæð 15,3 ma.kr. og skuldajöfnunin að upphæð 690 m.kr. 274 aðilar fengu styrk samkvæmt álagningunni og fjölgaði um þrjá milli ára.

Upphæðir Fjöldi
2023 2024 % br. 2023 2024 Br.
Útborgun 12.638 15.290 21,0% 247 256 9
Skuldajöfnun á móti tekjuskatti 1.216 690 -43,3% 58* 50* -8
Samtals 13.854 15.980 15,3% 271 274 3
* 32 lögaðilar fengu bæði skuldajöfnun og útborgun í álagningu ársins 2024 samanborið við 34 í álagningu ársins 2023

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta