Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlög fyrir árið 2025 samþykkt á Alþingi: Áframhaldandi aðhald sem styður við lækkun verðbólgu

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var í dag samþykkt sem lög frá Alþingi. Samþykkt fjárlög bera með sér áherslu á að lágmarka óvissu og víkja ekki frá því aðhaldi sem markað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í haust. Með fjárlögum ársins 2025 er því áfram vörðuð leið að frekari hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta.

Fjárlagafrumvarpið tók nokkrum breytingum í meðförum þingsins. Kemur það m.a. til af breytingum á þjóðhagsforsendum á síðustu mánuðum. Hagvöxtur í ár hefur reynst lægri en áður var spáð og hefur það óhjákvæmilega áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þá var boðað til kosninga sem fram fara í lok mánaðarins, sem hafði áhrif á stöðu nokkurra mála. Þannig náði frumvarp um kílómetragjald á ökutæki ekki fram að ganga, en á móti vegur að hluta að olíugjaldi og vörugjaldi af bensíni var haldið inni auk hækkunar á kolefnisgjaldi. Gangi forsendur þjóðhagsspár eftir, með ágætum hagvexti strax á næsta ári, er útlit fyrir að hagkerfið nái mjúkri lendingu eftir þensluskeið sl. tveggja ára.

Frumjöfnuður jákvæður um 22 ma.kr.

Áætlað er að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. afkoma án vaxtatekna og vaxtagjalda, verði jákvæður um 22 ma.kr., eða 0,5% af VLF, á komandi ári en vaxtajöfnuður neikvæður um ríflega 80 ma.kr., eða 1,7% af VLF.

Gert er ráð fyrir að halli á heildarafkomu ríkissjóðs muni nema um tæplega 59 ma.kr. á næsta ári, eða um 1,2% af landsframleiðslu ársins. Hefur þá verið tekið tillit til breytingar á kolefnisgjaldi sem samþykkt var á síðasta starfsdegi þingsins en láðist að gera samsvarandi breytingu í tekjuáætlun samþykktra fjárlaga. Afkoman batnar umtalsvert milli ára eða um 0,5 prósentustig af landsframleiðslu. Þótt afkoma ársins 2025 samkvæmt samþykktum fjárlögum sé lakari en lagt var upp með við framlagningu frumvarps til fjárlaga er aðhaldsstig ríkisfjármála nokkurn veginn óbreytt frá framlagningu frumvarpsins. Ástæðan er sú að lakari afkoma endurspeglar ekki verri undirliggjandi rekstur ríkissjóðs heldur þvert á móti að markmið efnahagsstefnunnar um minni þenslu, hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta ganga nú allhratt eftir. Vegna þessara breytinga í efnahagsaðstæðum verður aukning tekna minni en áður var spáð. Það hefur áhrif bæði á forsendur fjárlaga sem og endurmat afkomu á yfirstandandi ári.

Rétt er að benda á að samþykkt fjárlög gera ráð fyrir afkomuhalla sem nemur 63 ma.kr. eða 1,3% af VLF, en eins og eins og áður segir tekur sú niðurstaða ekki tillit til tekjuaukningar sem leiðir af hækkun kolefnisgjalds sem samþykkt var á síðasta þingfundi yfirstandandi þings. Áætlað er að breytingin auki tekjur ríkissjóðs um 4 ma.kr.

Skuldir ríkissjóðs munu áfram lækka á komandi ári en þó minna en áformað var í fjárlagafrumvarpinu. Áætlað er að þær nemi 32,5% í árslok 2025, en 33,7% í árslok 2024, og lækki því um 1,2% milli ára. Skuldir ríkissjóðs á þennan mælikvarða náðu hámarki við rúmlega 33% af VLF árin 2021–2022 í kjölfar heimsfaraldursins og voru 22% af VLF árið 2019.

Áherslumál í fjárlögum 2025

Í fjárlagafrumvarpinu var lögð áhersla á hóflegan raunvöxt útgjalda auk þess sem útgjöldum var forgangsraðað og hagrætt í þágu viðkvæmra hópa. Þetta frumvarp hefur nú orðið að lögum með þessum megináherslum.

Meðal verkefna á næsta ári má nefna upptöku á nýju örorkukerfi sem tekur gildi í september á næsta ári sem mun bæta kjör örorkulífeyrisþega verulega. Kjör ellilífeyrisþega batna en almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar um 46% í ársbyrjun 2025. Aukinn þungi verður settur í inngildingu flóttafólks og innflytjenda í íslenskt samfélag og fjárframlög til styttingar málsmeðferðartíma við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd verða aukin. Framlög til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu verða aukin, sem og tengivegir víða um land. Hafist verður handa við byggingu Þjóðarhallar í innanhússíþróttum og áfram verður lögð áhersla á stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun og kvikmyndagerð. Þá verður byggt nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns. Í meðförum þingsins á frumvarpinu var jafnframt tryggð fjármögnun fyrir aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna og gegn börnum og aukið fjármagn verður sett í uppbyggingu á afreksstarfi í íþróttum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta