Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stóraukið framlag til afreksíþrótta – 2.140 milljónir í fjárlögum 2025

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti áform um eflingu afreksíþróttastarfs á blaðamannafundi í Laugardalshöll í vor - mynd

Fjárframlag stjórnvalda til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári eftir samþykkt fjárlaga á Alþingi í dag. Alls verður 637 milljónum til viðbótar veitt til eflingar á afreksíþróttastarfi og 1.500 milljónum í þjóðarleikvanga. Markmiðið með þessum aðgerðum er að umbylta umgjörð íþróttastarfs á Íslandi og tryggja afreksíþróttafólki stuðning sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Aukningin er liður í aðgerðum stjórnvalda til eflingar afreksíþróttastarfs. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, setti af stað vinnu undir forystu Vésteins Hafsteinssonar í byrjun síðasta árs til að bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Vésteinn var samhliða ráðinn sem afreksstjóri ÍSÍ.

“Ég hef lagt ríka áherslu á stóreflingu íþróttastarfs og þessi fjárlög marka algjör tímamót. Bæði með stórauknu framlagi til reksturs afreksíþróttastarfs en líka með því að ríkisvaldið hefur aldrei stigið af jafnmiklum krafti inn í mannvirkjagerð ætlaða landsliðunum okkar,” að sögn Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra.

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra í vor og voru þær kynntar á blaðamannafundi í Laugardalshöll. Áður höfðu áformin verið rædd á fjölmennri samráðsráðstefnu með íþróttahreyfingunni, Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi.

Vinnum gullið – ráðstefna um nýja stefnu í afreksíþróttum, 20. nóvember 2023 í Hörpu

Nú hefst vinna við að hrinda aðgerðum til eflingar afreksíþróttastarfs í framkvæmd. Ætlunin er að búa þannig um afreksíþróttafólk og -starf hérlendis að stuðningur og aðstaða verði til fyrirmyndar og ekki síðri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Beinn fjárstuðningur til sérsambanda og afrekssjóðs verður aukinn samhliða stórauknum stuðningi við yngri landslið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun gegna lykilhlutverki í tillögunum þar sem fagteymi sérfræðinga kemur saman á einum stað og hlúir að öllum undirstöðuþáttum fyrir framúrskarandi árangur í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þar er horft til fleira þátta en eingöngu líkamlegrar þjálfunar. Taka þarf mið af nýjustu rannsóknum, huga vel að andlegum þáttum hjá afreksíþróttafólki og tryggja að það fái þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta helgað sig íþrótt sinni og öðlast sömu réttindi og aðrir á vinnumarkaði. Einnig verður unnið að eflingu umgjarðar og hæfileikamótunar ungs íþróttafólks með aukinni samvinnu mismunandi skólastiga, íþróttafélaga og sérsambanda.

Vésteinn Hafsteinsson, formaður starfshóps mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áformin á ráðstefnunni Vinnum gullið

Afreksmiðstöðin verður einnig í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar um land allt, fræðasamfélagið, íþróttahéruð og -félög. Ætlunin er að jafna tækifæri til íþróttaiðkunar óháð staðsetningu á landinu og skapa aðstæður þar sem hæfileikar fá að njóta sín.

Ný Þjóðarhöll í innanhússíþróttum er komin á hönnunar- og framkvæmdastig, endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er í undirbúningi. Í fjárlögum næsta árs renna 1,5 milljarðar króna til nýrrar Þjóðarhallar. Nýir og endurbættir þjóðarleikvangar styðja enn frekar við bætta umgjörð utan um afreksíþróttastarf.

Afreksíþróttafólk er fyrirmynd annarra. Árangur þess hvetur til íþróttaiðkunar og metnaðs í starfi og stuðlar þannig að bættum hag og lýðheilsu.

Frá blaðamannafundinum „Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta