Viðburðavika í sendiráðinu í Osló
Vikuna 11.-15.nóvember var nóg var um að vera í sendiráðinu í Osló, en haldin var svokölluð viðburðavika. Sjö viðburðir voru haldnir á fjórum dögum.
Mánudagurinn 11.nóvember
Mánudaginn 11.nóvember var Sylvi Listhaug formaður Framfaraflokksins gestur í hádegisverðarfundi NB8 sendiherra í Osló í boði sendiherra Íslands. Tækifærið var notað til að ræða það sem hæst ber í norskum stjórnmálum ekki síst í ljósi kosninga sem verða í september 2025 og þróun alþjóðamála.
Sama dag var opnum farandsýning Myndlistarmistöðvar Outside Looking In, Inside Looking Out opnuð í embættisbústaðnum í Osló. Sendiherra Högni Kristjánsson og Ásgerður Magnúsdóttir buðu fjölmennum hópi gesta frá myndlistasviði og menningu í Noregi velkomna. Til sýnis voru verk eftir Arnar Ásgeirsson, Emmu Heiðarsdóttur, Fritz Hendrik IV, Hildigunni Birgisdóttur, Melanie Ubaldo, Styrmi Örn Guðmundsson og Unu Björg Magnúsdóttur. Myndlistakonan Una Björg Magnúsdóttir var stödd á opnuninni ásamt sýningastjóranum H.K. Rannverssyni, Auði Jörundsdóttur framkvæmdarstjóra Myndlistarmiðstöðvar og hennar teymi. Áður hefur sýning verið sett upp í New York, París, Amsterdam og Helsinki. Sýning er unnin í samstarfi við Utanríkisráðuneytið og Íslandsstofu.
Þriðjudagurinn 12.nóvember
Þriðjudaginn 12.nóvember var haldinn annar hádegisverðarfundur fyrir sendiherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Osló í boði sendiherra Íslands. Sérstakir gestir voru fulltrúar frá norskum fjölmiðlum, þau Veslemøy Østrem frá Altinget, Frithjof Jacobsen frá Dagens Næringsliv og Lars Nehru Sand frá NRK. Efst á baugi voru komandi kosningar til Stórþingsins í Noregi í september 2025 en einnig var fjallað um öryggismál, Evrópumál og margt fleira.
Um kvöldið var haldin móttaka í embættisbústaðnum í samstarfi við WomenTechIceland með hópi kvenna úr tæknigeiranum í tilefni Nordic Women in Tech Awards. Ólöf Kristjánsdóttir, formaður WomenTechIceland fjallaði um stöðu kynjanna í tækni og mikilvægi verðlaunahátíða líkt og Nordic Women in Tech Awards. Þá fluttu þær Kolfinna Tómasdóttir og Bridget Burger kveðju frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.
Miðvikudagurinn 13.nóvember
Miðvikudaginn 13.nóvember fagnaði sendiráðið íslenskri tungu og bókmenntum með hátíðlegri móttöku í embættisbústaðnum í Osló. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta (ÍSLIT), Miðstöð norskra bókmennta (NORLA) og Skapandi Ísland sem er samtarfsvettvangur Utanríkisráðuneytis Íslands og Íslandsstofu um kynningu á íslenskri list og menningu erlendis. Sendiherra Högni Kristjánsson og Ásgerður Ingibjörg Magnúsdóttir buðu þar hátt í 100 gesti velkomna í embættisbústað Íslands.
Um kvöldið fór fram Nordic Women in Tech Awards verðlaunahátíðin á Clarion Hotel the Hub í Osló, og var viðburðurinn í embættisbústaðnum deginum áður haldinn í tilefni þessa. Unnu þær Sigyn Jonsdottir hjá Alda, Digital Transformation Leader of the Year, og Edda Aradottir hjá Carbfix, Innovator of the Year. Þar að auki var fjöldi íslenskra kvenna í tæknigeiranum tilnefndar til verðlauna á hátíðinni.
Fimmtudagurinn 14.nóvember
Fimmtudaginn 14.nóvember stóð sendiráðið, í einstaklega góðu samstarfi við Háskólann í Osló (UiO) fyrir málstofu um landnám Íslands. Þar héldu prófessorarnir Jón Viðar Sigurðsson og Jon Gunnar Jørgensen hjá UiO fyrirlestra um landnámið og Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur fjallaði um mjög áhugaverða fundi í uppgreftrinum sem hún leiðir á bænum Fjörður á Seyðisfirði. Þáttastjórnandinn og fjölmiðlamaðurinn Are Sende Osen stýrði svo samtali milli fræðimannanna og gestanna m.a. um hverjir landnámsmenn Íslands frá Noregi voru og hvað dró þá yfir hafið til Íslands. Tónlistafólkið, Rebekka og Jón Arnar, frá Norðfólk spiluðu íslensk þjóðlög og Högni Kristjánsson sendiherra bauð gestum að smakka á íslensku góðgæti! Það var þétt setið í húsnæði háskólans við Karl Johans götu í miðborginni og áhuginn á viðfangsefninu var framar öllum væntingum!
Myndir: FS Foto