Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Flotinn gegn ofbeldi meðal barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tekur þátt í vettvangsstarfi Flotans með Karen Rún Helgadóttur og Kára Sigurðssyni, starfsfólki Flotans - mynd

Flotinn – flakkandi félagsmiðstöð hefur fengið styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrir árin 2024–2025 til eflingar vettvangsstarfs í þágu ungmenna í viðkvæmri stöðu á stórhöfuðborgarsvæðinu. Styrkurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum.

Aðgerðirnar eru víðtækar og hafa það að markmiði að sporna við hvers kyns ofbeldi meðal og gegn börnum á Íslandi. Með þessum aðgerðum er lögð áhersla á eflingu forvarnarstarfs, þverfaglegt samstarf þjónustu- og viðbragðsaðila og samstillt samfélagslegt átak gegn ofbeldi.

Alls renna 1.385 milljónir króna til aðgerða á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins gegn ofbeldi meðal barna á þessu ári og því næsta. Þar af renna 66 milljónir til Flotans, sem hefur þegar sýnt framúrskarandi árangur í að ná til ungmenna í viðkvæmri stöðu. Um er að ræða verulega aukningu við upphaflegt fjárframlag til Flotans upp á 10 m.kr. á ári yfir sama tímabil vegna ákvörðunar ríkisstjórnar að auka fjármagn til aðgerðanna.

Aðrar aðgerðir á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins eru eftirfarandi:

  • Aukinn stuðningur við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu
  • Efling 1., 2. og 3. stigs þjónustu í öllum sveitarfélögum á grundvelli farsældarlaga
  • Nýtt úrræði fyrir ungmenni 16-17 ára sem eru hvorki í vinnu né námi (NEET)
  • Endurskoðun meðferðar mála og úrræða fyrir sakhæf börn
  • Efling Landsteymis Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu sem styður við börn, foreldra og skóla
  • Nýtt verklag fyrir ósakhæf börn og úrræði fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi/Farvegurinn
  • Stuðningur við framkvæmdaráætlun í barnavernd 2023–2027
  • Samfélagsátak um fræðslu og forvarnir
  • Virkjun foreldrastarfs í umhverfi barna, í samstarfi við SAMAN-hópinn
  • Aukin þverfagleg nálgun í ofbeldismálum meðal barna
  • Samhæfing aðgerða gegn ofbeldi og mótun stefnu til framtíðar
  • Efling ungmennastarfs í Breiðholti
  • Nýtt alþjóðlegt samvinnuverkefni um sjálfbært samfélag

Flotinn

Starfsfólk Flotans hefur náð framúrskarandi árangri í að mynda tengsl og traust samskipti við börn í viðkvæmri stöðu sem hafa meðal annars verið þátttakendur eða áhorfendur í ofbeldismálum. Með sérstakri nálgun sinni er Flotinn orðinn ómetanlegur hlekkur í því að veita þessum hóp ungmenna stuðning og leiðsögn.

Markmiðið með stuðningi við Flotann er að ná til ungmenna á aldrinum 12–16 ára sem taka ekki þátt í skipulögðu frístundastarfi, sýna áhættuhegðun og/eða búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Áhersla verður lögð á náið samstarf við lögreglu, aðra þjónustuveitendur við börn og sveitarfélög.

“Flotinn vinnur öðruvísi en allir aðrir. Þau fara út í hverfin, út í feltið og byggja upp traust hjá ungmennum. Það eru fáir sem njóta jafn mikils trausts meðal ungs fólks í áhættuhópum, ungmenna sem fáir ná til. Þetta er algjörlega magnað starf,” sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að lokinni kvöldvakt með Flotanum í lok október.

Fylgst verður með framvindu verkefnisins og afrakstur nýttur við að skilgreina formlegt verklag fyrir samvinnu vettvangsstarfs félagsmiðstöðva.

Flotinn fékk í gær, á degi mannréttinda barna, viðurkenningu Barnaheilla ásamt ömmu Andreu (Andreu Þórunni Björnsdóttur) fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Þessi viðurkenning undirstrikar mikilvægi Flotans í samfélagslegu átaki gegn ofbeldi og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta