Hvernig myndi þér líða ef þú þyrftir að yfirgefa heimilið þitt í flýti?
Barnaheill gáfu út á degi mannréttinda barna í gær myndband með stuðningi mennta- og barnamálaráðuneytisins um hvernig það er að yfirgefa heimili sitt í flýti. Markmiðið með myndbandinu er að vekja athygli á því áfalli sem það er að missa heimili sitt og mikilvægi þess að hlúa vel að þessum hópi barna.
Í myndbandinu er rætt við börn frá Grindavík, Úkraínu og Palestínu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Auk þeirra er rætt við sérfræðing í fjölmenningarmálum.
Myndbandinu er ætlað að gefa okkur innsýn í hvernig börnunum líður, hvers þau sakna og hverjir framtíðardraumar þeirra eru.
Það var sent á alla grunn- og framhaldsskóla landsins og fylgdi því verkefni sem er ætlað að fá börnin til að íhuga stöðu og réttindi þessara barna og setja sig í spor þeirra.