Í tilefni af dómi Hæstaréttar um málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Íslenska ríkið var sýknað í Hæstarétti í gær af kröfu Reykjavíkurborgar í máli sem borgin höfðaði vegna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til reksturs grunnskóla og vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál á tímabilinu 2015-2019. Með niðurstöðu sinni sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrir tæpu ári síðan.
Í niðurstöðukafla Hæstaréttar er fallist á sjónarmið ríkisins við málflutninginn að ótvírætt hafi verið að Reykjavíkurborg hafi ekki átt rétt á sérstökum jöfnunarframlögum vegna reksturs grunnskóla. Það hafi því ekki verið í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sem mælir fyrir um að tekjustofnar sveitarfélaga skuli vera ákveðnir með lögum, að undanskilja borgina framlögunum með ákvæði í reglugerð eins og hafði verið gert athugasemdalaust í rúma tvo áratugi.
Forsaga málsins er sú að ríkið og sveitarfélög gerðu með sér samkomulag um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskóla árið 1996. Í niðurstöðukafla Hæstaréttar er vísað til þess að ein forsenda við flutninginn hafi verið að Reykjavíkurborg gæti fjármagnað rekstur grunnskóla sinna með hækkun útsvars. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var á hinn bóginn veitt heimild með breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að úthluta framlögum til annarra sveitarfélaga til að jafna kostnað þeirra vegna reksturs grunnskóla. Reglugerð um úthlutun framlaganna var sett á grundvelli þeirra laga.
Mikilvægt hlutverk við að jafna stöðu sveitarfélaga
„Það er ánægjulegt að málið hafi verið leitt til lykta fyrir dómstólum. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki við að jafna stöðu sveitarfélaga, sem búa við ólíkar aðstæður vegna stærðar, staðsetningar og íbúasamsetningar. Framlög Jöfnunarsjóðs eru ein grunnforsenda þess að öll sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúa. Allri óvissu um þetta kjarnahlutverk Jöfnunarsjóðs er eytt með dómi Hæstaréttar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi segir að unnið hafi verið að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs á síðustu misserum sem miðuðu að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og laga hann að ýmsum breytingum í samfélaginu og á sveitarstjórnarstiginu á síðustu árum. Sveitarfélögum hafi fækkað með sameiningum og Jöfnunarsjóði verið falin fleiri og stærri verkefni. Tillögurnar voru lagðar fram í frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á síðasta þingvetri að undangengnu víðtæku samráði.
„Þegar niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir er fullt tilefni til að vinna áfram að mikilvægum breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs. Mikilvægast er að skapa einfaldara og sanngjarnara kerfi sem jafnar betur stöðu sveitarfélaga með lægri tekjur, þannig að allir íbúar landsins fái notið sams konar þjónustu frá sínu sveitarfélagi, sama hvar þeir búa. Í frumvarpinu var einnig komið til móts við ýmis önnur mikilvæg sjónarmið, s.s. þjónustu við börn af erlendum uppruna. Ljóst er að það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar að vinna áfram að framgangi þessara mála,“ segir ráðherra.
- Dómur Hæstaréttar nr. 15/2024 (20. nóvember 2024)