Neysla heimila tekur við sér og vöxtur í kortaveltu ferðamanna
Nýjustu vísbendingar um einkaneyslu sýna að neysla heimilanna virðist hafa tekið við sér á seinni helmingi ársins. Þróttmikill vöxtur er einnig í kortaveltu ferðamanna. Neysla heimilanna og erlendra ferðamanna bendir ekki til þess að efnahagsumsvif kólni umfram það sem hagspár hafa gert ráð fyrir. Þvert á móti glittir í þann viðsnúning í hagkerfinu sem hagspár hafa gert ráð fyrir að yrði þegar vextir hefðu náð hámarki. Ef fram fer sem horfir er útlit fyrir að hagvöxtur ársins 2025 verði á breiðum grunni einkaneyslu, fjárfestingar og útflutnings.
Spá Seðlabankans um neyslu heimila á næsta ári hækkar töluvert frá því í ágúst á sama tíma og spá bankans um verðbólgu lækkar. Bankinn telur að einkaneysla vaxi um 3%, drifið af miklum uppsöfnuðum sparnaði heimila. Á sama tíma er því spáð að verðbólga verði um 3% næsta sumar.
Betri verðbólguhorfur samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans létta undir heimilunum, ekki síst þeim sem hafa íbúðalán. Miðað við dæmigerðar forsendur getur greiðslubyrði óverðtryggðs láns á breytilegum vöxtum lækkað um hátt í 200 þúsund krónur á ársgrundvelli vegna þeirrar lækkunar stýrivaxta sem þegar hefur átt sér stað undanfarna tvo mánuði. Miðað við verðbólguhorfur, eins og þær birtast í spá Seðlabankans, og skilaboð bankans um þróun vaxta er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að greiðslubyrði slíks láns geti lækkað töluvert meira en það á næsta ári.