Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra styrkir tilraunaverkefni Hugarafls um endurhæfingu

Frá undirritun samnings við Hugarafl um endurhæfingarþjónustu - mynd

Heilbrigðisráðuneytið hefur gert samning við Hugarafl um tilraunaverkefni sem felur í sér aukinn stuðning við endurhæfingu notanda með geðrænar áskoranir. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls og Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri félagsins undirrituðu samning um verkefnið í gær.

Starfsemi Hugarafls er mótuð jafnt af einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum og einstaklingum með fagmenntun. Hugarafl hefur sinnt endurhæfingu í rúm tuttugu ár og sinnir notendum og aðstandendum af öllu landinu. Alls eru nú um 130 notendur í endurhæfingarferli hjá Hugarafli. Hingað til hafa þeir fengið þjónustu sem einn stór hópur, en með tilraunaverkefninu verður skipulaginu og áherslum breytt svo mæta megi betur þörfum hvers og eins.

Samningurinn byggir á auknum stuðningi við endurhæfingu notenda sem ganga í gegnum geðrænar áskoranir. Lögð verður áhersla á þrjá hópa, þ.e. notendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í endurhæfingu, notendur sem eru lengra komin í endurhæfingu og notendur sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði eða í námi.

„Hugmyndafræði Hugarafls byggir á valdeflingu, að uppræta fordóma og efla hlutverk og þátttöku notenda í eigin bataferli og í samfélaginu. Þessi nálgun hefur reynst vel, hjálpað mörgum og haft mikilvæg og jákvæð áhrif út í samfélagið. Ég fagna því þessum samningi sem gerir Hugarafli kleift að fjölga starfsfólki til að efla endurhæfingarstarfsemina og hjálpa fleirum til bata“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Ein af aðgerðum aðgerðaáætlunar geðheilbrigðismála til ársins 2027 felur í sér áherslu á að fólk með notendareynslu starfi sem víðast í geðheilbrigðisþjónustu og fellur samningurinn við Hugarafl vel að þeirri áherslu.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta