Stuðningur við Batahús
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Bati góðgerðarfélag hafa gert með sér samstarfssamning um áframhaldandi stuðning við Batahús, áfangaheimili og stuðningsúrræði fyrir einstaklinga, karla og konur, sem hafa verið í réttarvörslu og þarfnast stuðnings við að verða virkir þátttakendur í samfélaginu á ný.
Batahús var stofnað árið 2020 en meginmarkmið með starfsemi Batahúss er að skapa aðstæður þar sem bæði núverandi og fyrrverandi fangar fá betri stuðning við að aðlagast samfélaginu að nýju eftir hafa verið í réttarvörslu. Það felur m.a. í sér að auka tækifæri til atvinnu og/eða menntunar og draga úr félagslegum áskorunum. Lögð er áhersla á sjálfstyrkingu og að einstaklingum takist að snúa baki við vímuefnaneyslu og afbrotum, með virðingu og kærleik að leiðarljósi.
Bati rekur tvö Batahús, eitt fyrir karla og eitt fyrir konur, og þar er boðið upp á fjölbreytta aðstoð og stuðning við að byggja upp vímuefnalaust líf. Miðað er við að einstaklingar geti nýtt sér stuðningsúrræði Bata í allt að tvö ár og markmiðið að fólk geti að því loknu staðið á eigin fótum eins og kostur er.
Hugmyndin um Batahús var kynnt í skýrslu starfshóps á vegum félagsmálaráðuneytisins frá árinu 2019 en í skýrslunni voru lagðar fram tillögur um heildstæða og þverfaglega nálgun í málefnum einstaklinga sem hlotið hafa fangelsisdóm.