Aukinn stuðningur við almannaheillafélög milli ára
Stuðningur einstaklinga og lögaðila við almannaheillafélög jókst árið 2023. Þetta má lesa úr álagningarskrám vegna tekjuársins 2023. Til starfsemi almannaheillafélaga telst meðal annars mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, starfsemi björgunarsveita og ýmis önnur samfélagsleg starfsemi.
Síðari hluta árs 2021 tóku gildi lög um skattalega hvata til almannaheillastarfsemi. Markmið laganna var að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að styðja milliliðalaust við almannaheillastarfsemi og styrkja stöðu lögaðila sem starfa í þágu almannaheilla. Meðal ákvæða laganna var heimild einstaklinga til að draga gjafir og framlög til almannaheillastarfsemi frá tekjuskatts- og útsvarsstofni, allt að 350 þúsund krónur á ári. Frádráttur lögaðila vegna slíkra framlaga getur numið allt að 1,5% af heildartekjum.
Um 103.000 einstaklingar studdu almannaheillastarfsemi
Samkvæmt framtalsskilum vegna tekjuársins 2023 nýttu 103.000 einstaklingar heimildina til frádráttar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi, sem er fjölgun um 6.000 frá fyrra ári. Heildarupphæð framlaga einstaklinga nam 5,5 ma.kr. og jókst um 14,5% milli ára. Við framtalsskil lögaðila tilkynntu um 8.500 lögaðilar um frádrátt vegna framlaga og gjafa til almannaheillafélaga og nam stuðningurinn samtals 7,5 ma.kr. sem er 28,3% aukning frá fyrra ári.
Lögin um skattalega hvata fólu einnig í sér ýmsar undanþágur fyrir almannaheillafélög frá greiðslu skatta. Þannig eru alamannaheillafélög undanþegin greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Auk þess njóta þau undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts í tilteknum tilvikum. Þá eru almannaheillafélög undanþegin stimpilgjaldi og geta sótt um endurgreiðslu á allt að 100% virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað við mannvirki í þeirra eigu. Gjafir til almannaheillafélaga eru einnig undanþegnar erfðafjárskatti.