Greining á geðheilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna einhverfa og tillögur til úrbóta
Ein af megináskorunum í geðheilbrigðisþjónustu er að tryggja notendum samfellda, samþætta og heildræna þjónustu. Vísbendingar eru um að fólk með einhverfu fái ekki geðheilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum þeirra með árangursríkum hætti. Verkefnahópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að gera ferlagreiningu á geðheilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp og koma með tillögur til úrbóta hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum.
Verkefnahópurinn var skipaður fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytinu, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, samtökum einhverfra og sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Hópurinn vann náið saman við að greina núverandi stöðu geðheilbrigðisþjónustu og setja fram tillögur um úrbætur sem stuðla að markvissari og einstaklingsmiðaðri nálgun. Leitað var ráðgjafar hjá sérfræðingum í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og hluti verkefnahópsins sat jafnframt rýnifund sem Einhverfusamtökin efndu til með félagsmönnum og reyndist það ómetanlegt innlegg í vinnuna.
Um einhverfu
Einhverfa er meðfædd og er röskun á taugaþroska en ekki geðröskun. Greining á einhverfu er félagslegt hugtak notað til að útskýra mynstur í hegðun. Einhverfa og ódæmigerð einhverfa eru taldar til fötlunargreininga en Aspergerheilkenni og einhverfurófsröskun eru það ekki. Þannig er mismunandi eftir einhverfugreiningu hvort einhverfir einstaklingar uppfylla skilmerki um þjónustu við fatlaða. Beiðnum þeirra, sem greindir eru með einhverfu, um geðheilbrigðisþjónustu er vísað frá á mörgum stöðum um landið og búa þau því við ójöfnuð þegar kemur að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Ýmsar ástæður eru gefnar fyrir frávísun frá geðheilbrigðisþjónustu, t.d. að einhverfa sé fötlunargreining og því beri að þjónusta einhverfa einstaklinga annars staðar en í geðheilbrigðisþjónustu.
Tillögur að úrbótum
Ferlagreiningin sem skýrsla og tillögur vinnuhópsins byggjast á, var gerð með það að leiðarljósi að bæta aðgengi og gæði geðheilbrigðisþjónustu fyrir einhverfa, sem glíma oft við flóknar og samsettar geðrænar áskoranir. Áhersla var lögð á heildræna nálgun sem tekur mið af sértækum þörfum hvers og eins. Niðurstöður vinnunar leiða í ljós að bæta má núverandi úrræði og verklag til að tryggja betri þjónustu. Helstu tillögur vinnuhópsins eru þessar:
- Aukið samstarf heilbrigðisráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis um um bætta þjónustu við einhverfa.
- Opnun þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir einhverfa.
- Geðheilbrigðisþjónusta fyrir einhverfa til framtíðar verði þróuð og útfærð á öllum þjónustustigum til að mæta þörfum þeirra.
- Einhverfumiðuð nálgun verði í allri þjónustu við einhverfa.
- Vitundarvakning til að auka þekkingu og skilning á einhverfu.
- Málastjóri í félagsþjónustu til að styðja einstaklinga með einhverfu til virkni.
- Breytingar á lögum og reglugerðum sem tryggi einhverfum þjónustu við hæfi. Allar sjúkdómsgreiningar einhverfu verði færðar í lög og reglur, greiðsluþátttaka fyrir þjónustu verði samræmd o.fl.
- Einstaklingar með einhverfu fái ákveðinn tengilið í heilsugæslu. Sjúkdómsgreiningakerfið verði uppfært úr ICD-10 í ICD-11. Sýn og yfirlit yfir stöðu einhverfra í samfélaginu verði bætt.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Með þessari greiningu er stigið mikilvægt skref í átt að því að bæta lífsgæði einhverfra einstaklinga og tryggja að þeir fái viðeigandi þjónustu í samræmi við þarfir þeirra. Áformað er að skipa framkvæmdahóp sem mun vinna að innleiðingu tillagnanna, fylgjast með framvindu breytinga og meta árangur þeirra“.