Norræn samstarfsáætlun gefin út á sviði byggða- og skipulagsmála til ársins 2030
Norræna ráðherranefndin um sjálfbæran hagvöxt, sem skapar umgjörð um norrænt samstarf um byggða- og skipulagsmál, hefur gefið út samstarfsáætlun fyrir árin 2025-2030. Í áætluninni eru mörkuð stefnumál og forgangsröðun fyrir norrænt samstarf á sviði byggða- og skipulagsmála. Kastljósinu er beint að þeim sviðum þar sem norrænu löndin geta með samstarfi, sameiginlegum aðgerðum, miðlun reynslu og þekkingaröflun stuðlað að grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari Norðurlöndum.
Í inngangi samstarfsáætlunarinnar segir að það eigi að vera spennandi að búa, starfa, stunda nám og reka fyrirtæki hvar sem er á Norðurlöndum. Einnig kemur fram að landshlutar, borgir og sveitir Norðurlanda búi við mismunandi skilyrði og getu til að þróast. Það skipti máli að lausnir á þeim umfangsmiklu og flóknu samfélagsáskorunum sem Norðurlönd standa frammi fyrir taki mið af þessu. Það eigi til að mynda við um auknar kröfur í tengslum við öryggismál, afkomu og viðbúnaðarmál, um græn og stafræn umskipti og lýðfræðilegar breytingar sem hafa mismunandi áhrif á hin ýmsu svæði, borgir og sveitir.
Markmið samstarfsáætlunarinnar
Markmið 1: Grænu umskiptin skapi skilyrði fyrir frekari þróun og ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki á öllum svæðum Norðurlanda, jafnt í þéttbýli sem í dreifbýli
- Undirmarkmið 1.1: Góður þekkingargrunnur og ferlar varðandi skilvirka landnýtingu og forgangsröðun lands eiga að vera til staðar í norrænu löndunum
- Undirmarkmið 1.2: Byggðir í þéttbýli og dreifbýli eiga að hafa góðar forsendur til þess að njóta góðs af þeim tækifærum sem felast í grænum umskiptum
Markmið 2: Norræn svæði séu samkeppnishæf og samþætt
- Undirmarkmið 2.1: Á öllum svæðum á Norðurlöndum eiga að vera góð rammaskilyrði fyrir sjálfbæran hagvöxt, nýsköpun og viðnámsþrótt
- Undirmarkmið 2.2: Góð skilyrði séu fyrir því að laða að og halda í hæft vinnuafl öllum svæðum Norðurlanda
- Undirmarkmið 2.3: Góð rammaskilyrði skulu vera fyrir samstarfi yfir landamæri og starfssvæði
Markmið 3: Lífsskilyrði séu örugg og góð í bæði þéttbýli og dreifbýli á Norðurlöndum
- Undirmarkmið 3.1: Í borgum, bæjum og dreifbýli á Norðurlöndum á að vera jákvæð félagsleg þróun
- Undirmarkmið 3.2: Gott aðgengi á að vera að opinberri og einkarekinni þjónustu, jafnt í daglegu lífi sem á krísutímum, á svæðum Norðurlanda
Samstarfsáætlunin gildir fyrir tímabilið 2025-2030 en er skipt í þriggja ára starfsáætlanir fyrir tímabilin 2025-2027 og 2028-2030. Á miðju tímabili verður unnin úttekt og á grundvelli hennar getur ráðherranefndin ákveðið að gera breytingar á samstarfsáætluninni ásamt því að fá tillögur að því hvernig rétt sé að móta starfsáætlun seinna tímabilsins.