Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bjartur lífsstíll fyrir eldra fólk

Bjarni Benediktsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara (LEB), Oddný Árnadóttir framkvæmdastjóri LEB og Ásgerður Guðmundsdóttir verkefnastjóri heilsueflingar hjá LEB.  - mynd

Bjarni Benediktsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Landssambandi eldri borgara 15 milljóna króna styrk til verkefnisins Bjartur lífsstíll. Bjartur lífsstíll er samstarfsverkefni Landssambands eldri borgara (LEB) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Markmiðið er að auka lífsgæði eldra fólks um land allt í gegnum markvissa hreyfingu og auka líkur á að fólk geti búið lengur í heimahúsum. Jafnframt er samstarf við Gott að eldast aðgerðaáætlun, Heilsueflandi samfélög og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Verkefnið hófst með stuðningi úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu haustið 2021 og var nafn verkefnisins valið með það að leiðarljósi að hreyfing verði að lífsstíl hjá eldra fólki. Áhersla hefur verið lögð á að vinna í gegnum tengslanet félaga eldri borgara og íþróttahreyfinguna um allt land. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á samstarf við íþróttafélög, líkamsræktarstöðvar, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. 

Markmiðið er að tryggja að eldra fólki gefist alltaf kostur á hreyfingu í sínu nærumhverfi og að hægt sé að nálgast upplýsingar um það hvaða hreyfing er í boði á hverjum stað. Í því skyni hefur Bjartur lífstíll unnið að því, í samvinnu við sveitarfélögin í landinu, að setja upplýsingar um virkni og hreyfingu sem er í boði í hverju sveitarfélagi inn á island.is.

Unnið hefur verið að því að fá tengiliði heilsueflingar úr sérhverju sveitarfélagi sem hafi það hlutverk að vera ábyrgðaraðili síns sveitarfélags. Hlutverk tengiliða er meðal annars að tryggja að upplýsingar um hreyfiframboð fari inn á vefsíðu sveitarfélagsins og að þær séu ávallt uppfærðar eftir þörfum. 

Til grundvallar Björtum lífsstíl er sú að hugsun að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, bæði efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé áhersla á lýðheilsu og forvarnir. Heilbrigði snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og öll þau úrræði sem til staðar eru í samfélaginu, og að aðgengi að upplýsingum um hreyfingu og virkni sé aðgengilegt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta