Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Blönduhlíð – Nýtt meðferðarheimili fyrir ungmenni opnað í Mosfellsbæ

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, opnar nýtt meðferðarheimili - mynd

Í dag opnaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, meðferðarheimilið Blönduhlíð, sem staðsett er á Farsældartúni í Mosfellsbæ. Meðferðarheimilið er fyrir ungmenni á aldrinum 13–18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður rekið af Barna- og fjölskyldustofu.

Meðferðarheimilinu er ætlað að vera viðbót við greiningar- og meðferðardeild Stuðla. Með því að bæta við öðru meðferðarheimili er unnt að aðgreina betur börn með mismunandi vanda og veita á þann hátt sérhæfðari þjónustu. Áætlað er að börn með þyngri vanda fái áfram greiningu og meðferð á meðferðardeild Stuðla. Meðferðarheimilið Blönduhlíð á Farsældartúni verður opnara úrræði en þegar er á Stuðlum.

Vinna við stofnun meðferðarheimilisins hófst seint á síðasta ári þegar þörf var á frekari aðgreiningu milli ungmenna eftir að Stuðlar fóru að taka við börnum í afplánun og gæsluvarðhald. Leigusamningur um húsnæðið var undirritaður í sumar og síðsumars var hafist handa við framkvæmdir á húsnæðinu til þess að það hentaði til þeirrar notkunar sem ætluð var. Eftir að bruninn varð á Stuðlum í október, fækkaði meðferðarplássum á Stuðlum um tvö rými sem voru færð yfir á neyðarvistun Stuðla til bráðabirgða. Allt kapp var þá sett í framkvæmdir á nýja meðferðarheimilinu til að mæta þeim þörfum sem eru knýjandi fyrir börn í viðkvæmri stöðu.

Blönduhlíð er staðsett á Farsældartúni, áður Skálatúni, þar sem unnið er að hönnun nýs þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni. Með Farsældartúni er markmiðið að byggja upp miðstöð samstarfs lykilstofnana og félagasamtaka sem starfa í þágu farsældar barna.

„Hvert barn á rétt á öruggu og hlýju umhverfi þar sem það finnur fyrir stuðningi og fær þá aðstoð sem það þarf. Með Blönduhlíð sköpum við úrræði sem byggir á fagmennsku, umhyggju og virðingu fyrir þörfum þeirra ungmenna sem þangað koma. Markmið okkar er að tryggja þjónustu sem er bæði traust og styðjandi, þannig að hún mæti ungmennum og fjölskyldum þeirra af skilningi, í takt við þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

„Það er mikil áskorun fyrir unglinga og forsjáraðila þeirra að nýta sér þjónustu meðferðarheimilisins. Því skiptir sköpum hvernig umhverfið og aðbúnaðurinn er fyrir börnin. Blönduhlíð er hlýlegt og heimilislegt meðferðarúrræði sem veitir börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi þjónustu með gagnreyndum aðferðum. Starfsemin mun einskorðast við að veita alúðlega nálgun, mæta unglingunum þar sem þau eru stödd hverju sinni, greina vanda þeirra og nýta sér fallegt umhverfið til uppbyggingar til framtíðar. Blönduhlíð er fyrsta skrefið í átt að heilstæðum þjónustukjarna fyrir börn og unglinga á Farsældartúni“, segir Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta