Orkumál fengið aukið vægi í tíð núverandi ríkisstjórnar
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur afhent Alþingi skýrslu um raforkumálefni. Skýrslunni er ætlað að veita Alþingi upplýsingar um ástand og þróun raforkumála í ljósi mikilvægis raforku fyrir alla starfsemi í landinu.
Í formála ráðherra að skýrslunni kemur fram að orkumálefni hafi fengið aukið vægi með flutningi málaflokksins í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála í tíð núverandi ríkisstjórnar. Áskoranir á orkusviði hafi verið krefjandi, á sama tíma og markmið Íslands í loftslagsmálum hafi þrýst á orkuskipti á lofti, láði og legi. Langstærsti hluti loftslagsaðgerða gangi út á að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir græna orkugjafa. Þá hafi reynt á orkuöryggi landsmanna vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga, en einnig vegna ónógs orkuframboðs og tafa í uppbyggingu flutningskerfisins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Nauðsynlegt er að hafa réttar upplýsingar til að geta unnið að framgangi málaflokksins. Í byrjun kjörtímabilsins lét ég taka saman skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum, eða grænbókina svokölluðu. Með henni fylgdi meiri skilningur á nauðsyn þess að efla og styðja við aukna orkuöflun bæði fyrir almenning, atvinnulíf og orkuskiptin. Skýrsla þessi um raforkumálefni er einnig liður í bættri upplýsingagjöf. Hér er farið nánar í þau fjölmörgu verkefni sem unnið hefur verið að í orkumálum.“
Í skýrslunni er fjallað um:
- Skipulag og þróun raforkumála á Íslandi
- Sölu og notkun raforku undanfarin ár
- Skipulag og þróun raforkumála á Íslandi
- Þróun tekjumarka og raforkuverðs
- Raforkuþörf og öryggi raforkukerfisins
- Gæði raforku og afhendingaröryggi
- Rannsóknir orkulinda og undirbúning þeirra til raforkuvinnslu
Í skýrslunni er áhersla lögð á að tryggja þurfi aðgang að heitu vatni til framtíðar til húshitunar, en árið 2023 var sett af stað átak í jarðhitaleit eftir langt hlé. Það hefur skilað árangri á mörgum stöðum á landinu, m.a. á Vestfjörðum. Jarðhitaleit sem farið var í nærri Reykjanesbæ, í ársbyrjun 2024, hafi einnig skilað góðum árangri, sérstaklega varðandi borholu á Rockvillesvæðinu. Með þeirri borholu og tveimur 5 MW gufukötlum er áætlað að hægt verði að framleiða samtals um 50 l/sek. af 80-85°C heitu vatni, sem ætti að duga til að halda veitukerfi frostfríu færi svo að orkuverið í Svartsengi yrði óstarfhæft í lengri tíma. Meira þurfi þó til eigi að halda húsnæði á Suðurnesjum einnig frostfríu, en til þess þurfi líklega um 150-200 l/sek.
Afgreiðsla 3. áfanga rammaáætlunar á þessu kjörtímabili er einnig til umfjöllunar, sem og einföldun regluverks og aðgerðir til að auka skilvirkni í stjórnsýslunni, sem m.a. verði náð fram með umfangsmiklum stofnanasameiningum á málefnasviði ráðuneytisins. Þannig mun til að mynda ný Umhverfis- og orkustofnun taka til starfa 1. janúar 2025.
Þá eru gerð skil útgáfu fyrstu rekstrarleyfa til viðskiptavettvanga á kjörtímabilinu, orkuöryggi, eflingu Orkusjóðs og þess að framkvæmdaleyfi var veitt fyrir Suðurnesjalínu 2 eftir langa bið.
Skýrslan er unnin í samræmi við raforkulög og er þetta í áttunda sinn sem ráðherra orkumála leggur slíka skýrslu fyrir þingið.
Skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um raforkumálefni