Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Vottorð og vottorðavottorð

Starfshópur um vottorð á skilafundi með Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra - myndheilbrigðisráðuneytið

Útgáfa vottorða í heilbrigðiskerfinu hleypur á hundruðum þúsunda á ári. Síðastliðið ár gáfu heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu og Landspítali út tæplega 190.000 vottorð. Flest eru gefin út að beiðni opinberra stofnana til að tryggja réttindi einstaklinga í tengslum við ýmsa þjónustu. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem fjallaði um leiðir til að einfalda vottorðakerfið: „Markmiðið er að nýta  betur tíma heilbrigðisstarfsfólks, minnka álag, auka skilvirkni og bæta þjónustu við almenning“ segir ráðherra. 

Algengustu vottorðin

Greiningin byggir á gögnum um útgáfu vottorða á Landspítala og hjá öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu árið 2023. Vottorð útgefin af Landspítala á liðnu ári voru rúmlega 46.700 og tæplega 145.200 hjá heilsugæslu­stöðvun­um. Flest vottorðanna eru gefin út af heilsugæslulæknum. Útgefin vottorð ár hvert eru umtalsvert fleiri, því sambærileg vottorð eru gefin út hjá heilbrigðisstofnunum um allt land og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Langflest vottorð voru gefin út vegna fjarvista frá vinnu, tæplega 40.000, næst komu beiðnir um sjúkraþjálfun, tæplega 30.000 og í þriðja sæti voru svokölluð almenn vottorð, um 15.700. Í fjórða og fimmta sæti voru vottorð vegna ökuréttinda, um 13.000 og útgáfa lyfjaskírteina, um 13.000.

Stór hluti vottorða er gefinn út að beiðni opinberra stofnana, svo sem Tryggingastofnunar, Sjúkratrygginga Íslands og Vinnumálastofnunar, en einnig eru gefin út vottorð fyrir menntastofnanir, atvinnurekendur og tryggingafélög. 

Tillögur um einföldun vottorðakerfisins

Helstu tillögur skýrsluhöfunda um leiðir til að einfalda vottorðakerfið eru þessar:

  • Auka notkun stafrænna lausna og greiðari miðlun gagna milli stofnana, ekki síst milli Sjúkratrygginga Íslands og Tryggingastofnunar.
  • Sameina vottorð sem fjalla um tengd málefni (t.d. vegna örorku, stæðiskorta og styrkja).
  • Lengja gildistíma vottorða sem krefjast reglulegrar endurnýjunar vegna langvarandi eða varanlegs ástands (t.d. vottorð vegna hreyfihömlunar og lyfjaskírteini).
  • Heimila fleiri heilbrigðisstéttum að gefa út vottorð í skilgreindum tilvikum.
  • Draga úr óþarfa vottorðaskrifum, t.d. vegna stuttra veikindafjarvista frá skóla eða vinnu.
  • Endurskoða ákvæði laga þar sem krafist er vottorða til betra samræmis við framkvæmdina innan heilbrigðiskerfisins.

Gildistaka laga nr. 104/2024 í september á næsta ári sem kveða á um viðamiklar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga mun leiða til verulegrar einföldunar á vottorðakerfinu, líkt og fjallað er um í meðfylgjandi skýrslu.

Heilbrigðisráðuneytið mun á næstu misserum vinna að innleiðingu umbótatillagna í samstarfi við aðrar stofnanir og hagaðila.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta