Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2024 Forsætisráðuneytið

Símafundur við verðandi Bandaríkjaforseta

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra átti í gær símafund við Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, þar sem þeir ræddu góð samskipti ríkjanna, viðskipti og öryggis- og varnarsamstarf. Þá var rætt um mikilvægi Atlantshafsbandalagsins fyrir öryggi og varnarviðbúnað á Norður-Atlantshafi og loftrýmisgæsluna sem Bandaríkin og önnur bandalagsríki sinna í nánu samstarfi við íslensk stjórnvöld á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Í samtalinu lagði forsætisráðherra sömuleiðis áherslu á áframhaldandi öflugan stuðning við Úkraínu og að leita yrði allra leiða til að tryggja langvarandi frið.

Í samtalinu ræddi forsætisráðherra mikilvægi þess að dýpka viðskipti ríkjanna, enda Bandaríkin mikilvægasta einstaka viðskiptaland fyrir íslenskar útflutningsvörur.

Sömuleiðis minntist forsætisráðherra á alþjóðlega fundi sem haldnir hefðu verið á Íslandi undanfarin ár og áratugi, bæði nýlega alþjóðlega fundi og viðburði á borð við fundinn í Höfða 1986. Sammæltust hann og verðandi Bandaríkjaforseti um að Ísland væri góður staður fyrir slíka fundi.

Sýndi verðandi Bandaríkjaforseti Íslandi mikinn áhuga í samtalinu og var tíðrætt um aðdráttarafl landsins fyrir bandaríska ferðamenn sem eru fjölmennasti hópur þeirra tveggja milljóna ferðamanna sem heimsækja Ísland ár hvert. Var Trump afar áhugasamur um sögu og menningu þjóðarinnar í samtalinu og bað hann forsætisráðherra fyrir góðum kveðjum til íslensku þjóðarinnar.

Donald Trump tekur við embætti 47. forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta