Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Átak í uppbyggingu smávirkjana

Reykir Fnjóskadal - myndÞura Jónasar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að setja af stað átak í uppsetningu smávirkjana í samstarfi við landeigendur og aðra rétthafa vatnsréttinda.

Mikil tækifæri felast í aukinni uppbyggingu smávirkjana, en með smávirkjunum er átt við vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl undir 10 MW. Margar smávirkjanir eru nú þegar í rekstri og gegna mikilvægum þætti í orkubúskapi landsins og voru svokallaðar heimavirkjanir burðarás í raforkukerfinu langt fram á 20. öldina.

Orkustofnun hefur kortlagt rúmlega 2.500 staði sem eru náttúrulegir og landfræðilegir kostir fyrir smærri vatnsaflsvirkjanir. Fræðileg aflgeta þeirra er um 3.742 MW, með ákveðnum fyrirvörum þó, t.d. um skörun vatnasviða og umhverfisáhrif. Tæknileg aflgeta smávirkjana á Íslandi er því töluverð, en hagkvæmni kostanna og umhverfisáhrif eru afar breytileg.

Starfshópur um bætta orkunýtni sem ráðherra skipaði vorið 2023 lagði til í apríl sl. að stefna ætti að því með markvissum aðgerðum að allt að 1.200 GWst á ári af viðbótarorku komi frá smærri vatnsaflsvirkjunum fyrir árið 2040.

Umhverfis- og orkustofnun verður falið að halda utan um átakið, sem kanna á í samstarfi við landeigendur og aðra rétthafa vatnsréttinda, nánar þá smávirkjanakosti sem hafa verið kortlagðir nú þegar og leita leiða til þess að koma framkvæmdum af stað.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Rafvæðing Íslands hófst með smávirkjunum að frumkvæði bænda eins og Bjarna frá Hólmi í Landbroti. Það felast mikil tækifæri fyrir bændur og aðra landeigendur að koma upp smávirkjunum og framleiða þannig raforku til eigin nota og til að selja inn á kerfið. Mikilvægt að leitað sé allra leiða til að auka framleiðslu á grænni orku í raforkukerfinu.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta