Endurnýjaður þjónustusamningur Íslandsstofu við ríkið um eflingu útflutnings, ferðaþjónustu og fjárfestingar
Menningar- og viðskiptaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Íslandsstofa skrifuðu í dag undir endurnýjaðan þjónustusamning um starfsemi Íslandsstofu, sem gildir frá 1. janúar 2025 til ársloka 2029. Samningurinn byggir á þeim grunni sem lagður hefur verið síðustu ár en felur í sér nokkrar breytingar sem styrkja enn frekar getu Íslandsstofu til að leiða samræmt kynningar- og markaðsstarf á alþjóðamörkuðum. Starfsemi Íslandsstofu byggir á útflutningsstefnu Íslands og er lögð áhersla á þjónustu við fimm geira atvinnulífsins; orku og grænar lausnir, hugvit og tækni, listir og skapandi greinar, ferðaþjónustu og sjávarútveg og matvæli.
„Með endurnýjun samningsins tryggjum við áfram öflugt kynningar- og markaðsstarf fyrir Ísland sem áfangastað ferðamanna og sem ákjósanlegt land til útflutnings og fjárfestinga, meðal annars í hugverkaiðnaði og nýsköpun. Þetta er lykilatriði til að viðhalda samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
„Á undanförnum árum höfum við séð spennandi þróun á útflutningi frá Íslandi. Ferðaþjónustan er stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein okkar, en aðrar greinar eru einnig í mikilli sókn og þar vil ég sérstaklega nefna hugverkaiðnaðinn sem er orðin mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi. Þá felast mikil tækifæri í listum og skapandi greinum þar sem við Íslendingar eigum fólk á heimsmælikvarða á fjölmörgum sviðum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Samningurinn er til fimm ára og samkvæmt honum er grunnurinn í fjármögnun Íslandsstofu markaðsgjald sem fyrirtækin í landinu greiða auk árlegs framlags menningar- og viðskiptaráðuneytis sem verður 428 milljónir króna á árunum 2025-2029.
„Íslenskt hagkerfi byggist á verðmætasköpun þar sem útflutningstekjur leika lykilhlutverk. Samningurinn felur í sér að unnið verður markvisst að því að auka útflutningstekjur Íslands á breiðum grundvelli og auka verðmætasköpun. Því er mikilvægt að hann skuli vera í höfn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu, segir þjónustuna afar mikilvæga fyrir atvinnulífið. „Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda um að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins á sér langa sögu og hefur verið mikilvægur þáttur í að auka verðmætasköpun íslensks þjóðfélags. Íslandsstofa er kjölfestuaðili í því samstarfi. Samningurinn er mikilvægur til þess að tryggja fyrirsjáanleika í starfseminni til næstu fimm ára.“
Íslandsstofa er í lögum skilgreind sem samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt og efla ímynd og orðspor Íslands. Íslandsstofa leiðir samræmt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem styður við sókn íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði og eflir nýfjárfestingu í íslensku atvinnulífi.