Breyting á lögum um náttúruvernd, Vatnajökulsþjóðgarð og úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála í Samráðsgátt
Umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um breytingar á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, lögum nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð og lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Í júní sl. var samþykkt á Alþingi frumvarp umhverfis- orku- og loftslagsráðherra um nýja Náttúruverndarstofnun sem tekur til starfa í janúar nk. Tekur stofnunin við starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim hluta Umhverfisstofnunar er lýtur að náttúruvernd. Í frumvarpi til laga um stofnunina voru boðaðar frekari lagabreytingar við samþykkt laganna í þeim tilgangi að samræma reglur eins og unnt væri. Frumvarp það sem nú er lagt fram til samráðs er því hluti af þeirri vegferð.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrrgreindum lögum til að samræma ákvæði sem gilda um gjaldtöku, málsmeðferð, þvingunarúrræði, eftirlitsheimildir og kæruleiðir. Þá eru jafnframt lagðar til breytingar á skipun svæðisstjórna í þjóðgörðum.
Með frumvarpinu eru gjaldtökuákvæði laga um náttúruvernd og laga um Vatnajökulsþjóðgarð samræmd. Með breytingunni er m.a. lögð áhersla á heimild Náttúruverndarstofnunar til gjaldtöku fyrir veitta þjónustu á náttúruverndarsvæðum.
Þá er lögð til breyting á skipun svæðisstjórna á svæðum sem friðlýst hafa verið sem þjóðgarðar með það að leiðarljósi að tryggja aðkomu heimafólks við framkvæmd náttúruverndar í heimabyggð. Kveðið er á um það í frumvarpinu að svæðisstjórnir skuli skipaðar tveimur aðilum og einn aðili skuli skipaður án tilnefningar. Meirihluti svæðisstjórnar væri því skipaður fulltrúum sveitarfélaga í viðkomandi sveitarfélagi. Þá er jafnframt tryggt að rödd heildarsamtaka á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu fái að heyrast með því að viðkomandi samtök skuli eiga áheyrnarfulltrúa í svæðisstjórnum.
Jafnframt eru lagðar til breytingar á kæruleiðum samkvæmt lögum um náttúruvernd og lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, með þeim hætti að ákvarðanir samkvæmt lögunum sæti kæru til kærunefndar umhverfis- og auðlindamála. Með breytingunni má ætla að skilvirkni kærumála aukist sem eflir réttaröryggi borgaranna.
Loks er lagt til að Náttúruverndarstofnun verði fengið í hendurnar nauðsynlegar heimildir til til að bregðast við brotum innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Mælir því frumvarpið fyrir um að kafli náttúruverndarlaga um þvingunarúrræði og viðurlög verði tekinn upp í lög um Vatnajökulsþjóðgarð í heild sinni.
Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 27. desember.