Lokaskýrsla starfshóps um stefnu og aðgerðir í skaðaminnkun
Starfshópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði til að móta drög að fyrstu stefnu stjórnvalda á sviði skaðaminnkunar og leggja til aðgerðaáætlun á grunni hennar hefur skilað skýrslu með niðurstöðum sínum.
„Skaðaminnkun er hugmyndafræði sem er tiltölulega ný af nálinni hér á landi og fléttast inn í fjölmarga þætti samfélagsins, einkum heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og löggæslu. Engin formleg stefna er til um skaðaminnkun hér á landi og því ákvað ég að láta ráðast í þá vinnu, enda þörfin skýr og töluvert verið kallað eftir slíkri stefnumótun, m.a. í umræðum á Alþingi“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Skaðaminnkandi stefnur, verkefni og verklag miða að því að draga úr neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum áhrifum á fólk sem notar lögleg eða ólögleg vímuefni. Í skaðaminnkandi þjónustu er lögð áhersla á að stuðla að jákvæðum breytingum, bæði fyrir þjónustuþega og samfélagið, og skal þjónusta við fólk sem notar vímuefni veitt án fordóma, þvingunar eða mismununar og án þess að forsendan fyrir veittri þjónustu sé að fólk hætti að nota vímuefni. Þjónusta sem byggir á skaðaminnkun gagnast öllu fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi og samfélaginu í heild. Áherslan er á að draga úr eða fyrirbyggja skaða og neikvæðar afleiðingar af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Þannig hefur skaðaminnkun sterka skírskotun til lýðheilsusjónarmiða og bættra lífsgæða alls fólks sem notar vímuefni. Ávallt skal hafa í forgangi að koma í veg fyrir að fólk láti lífið vegna vímuefnanotkunar.
Þjónusta sem byggir á skaðaminnkun er viðbót við það framboð meðferða við vímuefnanotkun sem þegar er til staðar í samfélaginu sem og viðbót við aðgerðir og inngrip sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr notkun vímuefna. Þekkt er að fjöldi fólks víða um heim notar vímuefni þrátt fyrir ýtrustu viðleitni samfélagsins til að fyrirbyggja upphaf eða áframhaldandi notkun vímuefna.
Í skýrslunni er ekki fjalla um þá heilbrigðisþjónustu sem lýtur að forvörnum, meðferð eða endurhæfingu, enda er það sú heilbrigðisþjónusta sem getur tekið við þegar skaðaminnkun sleppir.
Annar starfshópur vinnur að endurskoðun og uppfærslu stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Ekki verður um aðskildar stefnur að ræða heldur er markmiðið að um ákveðna víxlverkun verði að ræða og unnið verði að heildstæðri framtíðarsýn í málaflokknum á sviði skaðaminnkunar, meðferðferðar, endurhæfingar og forvarna.
Skýrsla starfshópsins hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 26. desember næstkomandi.