Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

„Mannafli í læknisþjónustu til framtíðar“ – skýrsla starfshóps

Heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum starfshópsins um mönnun læknisþjónustu til framtíðar - myndStjórnarráðið

Staða mönnunar í læknisþjónustu á Íslandi, spá til næstu ára og tillögur um aðgerðir og leiðir til að tryggja mönnun þessarar mikilvægu þjónustu til framtíðar er viðfangsefni nýrrar skýrslu starfshóps, skipuðum af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Í skýrslunni er lögð fram tillaga að aðgerðaáætlun um þetta stóra verkefni.

„Mönnun læknisþjónustu er ein af helstu áskorunum íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Hún er grundvallarþáttur í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og því mikilvægt að kortleggja hver þörfin er fyrir læknisþjónustu í dag og hver hún verður til framtíðara“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. „Í þessu ljósi skipaði ég starfshópinn og einnig í samræmi við samkomulag tengt kjarasamningi við Læknafélag Íslands frá því í maí í fyrra. Ég er afar ánægður með störf hópsins og tel brýnt að vinna áfram með þær greiningar og tillögur sem nú liggja fyrir“ segir Willum Þór.

„Áskoranir framtíðar verða ekki eingöngu leystar með aðferðum fortíðar, þær kalla á nýjar hugmyndir og nýjar lausnir. Þess vegna inniheldur aðgerðaráætlunin hugmyndir að nýjum lausnum, sérstaklega hvað varðar samræmingu læknisþjónustu á landsvísu og tillögur að nýju verklagi við þarfagreiningar og gerð mönnunarviðmiða“ segir meðal annars í skýrslu hópsins. Þar er einnig dregið fram hvernig lýðfræðilegar breytingar; fjölgun íbúa og ferðamanna, mikil fjölgun aldraðra og þar með fjölveikra, nýjar meðferðir og margvíslegar framfarir, auki þörfina fyrir nýja nálgun, nýjar lausnir og styrkingu mannaflans.

Um 1.110 sérfræðilæknar eru nú starfandi hér á landi. Ár hvert útskrifast um 100 íslenskir læknanemar frá Háskóla Íslands og erlendum háskólum. Flestir þeirra hefja 6-8 ára langt sérnám eftir útskrift og stunda nú um 320 almennir læknar slíkt nám hérlendis auk óþekkts fjölda erlendis. Skýrsluhöfundar benda á að nákvæmar og aðgengilegar miðlægar upplýsingar vanti um læknamannaflann í heild, óháð starfsstöðvum, s.s. um brottfall úr starfi, nýliðun í hverri sérgrein, vænt afköst og áætlaða þörf fyrir lækna í hverri grein.

Starfshópurinn gerði könnun meðal yfirlækna valinna sérgreina og/eða starfsstöðva um áætlaða samanlagða þörf fyrir viðbótarstöðugildi árið 2030. Niðurstaðan gefur vísbendingar um að núverandi fjöldi stöðugilda nemi um 66% af áætlaðri þörf árið 2030. Niðurstaða gervigreindargreiningar styður þessa niðurstöðu en samkvæmt henni mun vanta um 330 sérfræðilækna árið 2030, sé gert ráð fyrir að hver læknir starfi í 60-70% stöðugildi sem algengt er í dag.

Þótt starfshópurinn taki niðurstöðunum með fyrirvara og telji nákvæmari tölfræðilegar greiningar þurfa til að staðfesta þær, bendi þær til að mönnunargatið sé umtalsvert og grípa þurfi til margvíslegra aðgerða til að brúa það. Meginefni aðgerðaáætlunar starfshópsins

Aðgerðaáætlunin felur í sér;

  • nýjar tillögur um samræmda yfirsýn og stýringu á heildarmannafla í læknisþjónustu á landsvísu
  • uppbyggingu miðlægrar gagnagreiningar í rauntíma og nýtt skipulag við gerð þarfagreiningar og mönnunarviðmiða á landsvísu
  • enn frekari styrkingu grunnnáms í læknisfræði og áframhaldandi uppbyggingu sérnáms
  • breytingar á vinnuskipulagi lækna og verkaskiptingu
  • sérstakt átak í mönnun í heimilislækningum með áherslu á landsbyggðina
  • aðgerðir til þess að hraða uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár og fjarlækninga á landsvísu.
  • Að auki er gert ráð fyrir nýju samstarfi heilbrigðisstofnana hvað kennslu-, vísinda- og nýsköpunarstarf varðar.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, leiddi verkefni starfshópsins . Í hópnum áttu einnig sæti fulltrúar frá Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur og embætti landlæknis. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir um allt land. Einnig leitaði hópurinn til fjölmargra annarra aðila um álit og ráðgjöf, líkt og rakið er í skýrslu hópsins.

 

  • „Mannafli í læknisþjónustu til framtíðar“ – skýrsla starfshóps - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta